Forstjóri Emirates dáist að Thunberg

150.000 farþegar fljúga daglega með Emirates og kolefnisfótspor flugfélagsins er …
150.000 farþegar fljúga daglega með Emirates og kolefnisfótspor flugfélagsins er gríðarstórt. Forstjóri flugfélagsins segir blákaldan veruleika loftslagsbreytinga blasa við og gerir hann sé grein fyrir ábyrgð þeirra sem starfa í flugrekstri. AFP

Tim Clark, forstjóri flugfélagsins Emirates, er ekki afneitunarsinni þegar kemur að loftslagsmálum og loftslagsvá, en hann viðurkennir að það hafi tekið hann tíma að viðurkenna að þörf sé á aðgerðum. 

„Blákaldur veruleiki loftslagsbreytinga blasir við okkur. Ég trúi á loftslagsbreytingar en ég verð að segja að það tók mig tíma að komast þangað,“ segir Clark í samtali við Breska ríkisútvarpið. Hann segist fyrst og fremst hafa efast um þann fjölda krafna sem gerðar hafa verið til að grípa til aðgerða gegn loftslagsvánni. 

„Og við [sem störfum í flugrekstri] erum ekki að gera okkur neina greiða með því að dæla milljörðum tonna af kolefni út í andrúmsloftið. Það er eitthvað sem verður að takast á við,“ segir forstjórinn. 

Clark, sem verður sjötugur síðar í þessum mánuði, hefur gegnt forstjórastarfi Emirates hálfa starfsævina. Flugfélagið, sem er með höfuðstöðvar í Dubai, er eitt farsælasta flugfélag í heimi og flytur daglega um 150 þúsund farþega. Clark hefur fengist við ýmsar áskoranir í gegnum tíðina en ljóst er að verkefnið að minnka kolefnisfótspor flugfélagsins verður með því stærsta á ferlinum. Emirates sinnir einnig fraktflutningum og vélar félagsins nota um 100 milljónir olíutunna árlega. 

Í viðtalinu talaði Clark einnig um dálæti sitt á loftslagsaðgerðasinnum líkt og Gretu Thunberg, sem hann segir hafa gert meira til að varpa ljósi á vandamálið heldur en ríkisstjórnir og stórfyrirtæki. 

Greta not­ast ekki við flug­sam­göng­ur af um­hverf­is­ástæðum og Clark segist skilja að flestir aðgerðasinna í loftslagsmálum munu ekki una sér þar til flugvélar, eins og þær eru reknar í núverandi mynd, hætti að fljúga.

Clark segir það hins vegar ekki möguleika eins og staðan er í dag. En hann viðurkennir að rödd aðgerðasinna heyrist. „Við erum ekki lengur að draga fæturna.“

Greta Thunberg flýgur ekki af umhverfisástæðum en nýtir sér þess …
Greta Thunberg flýgur ekki af umhverfisástæðum en nýtir sér þess í stað umhverfisvænar seglskútur til að ferðast heimshorna á milli. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert