Blaðakonan sem æðstu ráðamenn Möltu vildu feiga og fengu

Mótmælendur eru ekkert að skafa utan af því sem þeir …
Mótmælendur eru ekkert að skafa utan af því sem þeir telja ástæðuna á bak við morðið á Galizia. AFP

Morðið á maltnesku blaðakonunni Daphne Caruana Galizia virðist hafa opnað ormagryfju spillingar í heimalandi hennar. Forsætisráðherra Möltu, Joseph Muscat, tilkynnti í gær að hann hygðist segja af sér embætti í byrjun næsta árs, en áður höfðu tveir ráðherrar úr ríkisstjórn hans, auk aðalaðstoðarmanns hans, sagt af sér.

En hver var þessi blaðakona sem valdamiklir aðilar í maltnesku samfélagi vildu feiga og lést í bílsprengju skammt frá heimili sínu 16. október 2017?

Forsætisráðherrann Joseph Muscat hefur tilkynnt að hann muni segja af …
Forsætisráðherrann Joseph Muscat hefur tilkynnt að hann muni segja af sér embætti í byrjun árs 2020. AFP

Daphne fæddist í bænum Sliema á norðausturströnd Möltu 26. ágúst 1964. Hún var elst fjögurra systra og lagði stund á fornleifa- og mannfræði við Háskólann á Möltu. Daphne var ung farin að láta sig þjóðfélagsmál varða og var fyrst handtekin 18 ára gömul fyrir að taka þátt í mótmælum og látin sæta 48 klukkustunda gæsluvarðhaldi, en lögreglumaðurinn sem handtók hana, Angelo Farrugia, varð síðar forseti maltneska þingsins.

Daphne kvæntist eiginmanni sínum, Peter Caruana Galizia, árið 1985 og eignuðust þau þrjá syni. Einn þeirra, Matthew Caruna Galizia, fetaði í fótspor móður sinnar og starfar sem rannsóknarblaðamaður enn þann dag í dag.

Daphne hóf störf við blaðamennsku aðeins 23 ára gömul og starfaði m.a. fyrir The Sunday Times of Malta og The Malta Independent, auk þess sem hún var meðal stofnenda lífsstílstímaritsins Taste&Flair. Það var svo í mars 2008 sem Daphne stofnaði bloggsíðu undir nafninu Running Commentary og hóf að birta rannsóknargreinar og umfjallanir um málefni líðandi stundar í Möltu og opinberar persónur.

Einnar konu Wikileaks

Running Commentary naut gríðarlegra vinsælda og varð ein vinsælasta vefsíða Möltu, með um 400.000 heimsóknir daglega, og var Daphne jafnvel kölluð „einnar konu Wikileaks“. Það voru þó ekki allir ánægðir með framtak Daphne, enda einbeitti hún sér að því að afhjúpa hvers konar spillingu, og samkvæmt syni hennar, Matthew, bárust henni hótanir nánast daglega vegna umfjallana sinna, auk þess sem hún var margsinnis lögsótt fyrir fréttaflutning sinn.

Mótmælendur krefjast réttlætis handa Galizia og afsagnar forsætisráðherrans.
Mótmælendur krefjast réttlætis handa Galizia og afsagnar forsætisráðherrans. AFP

Meðal þess sem Daphne fjallaði um á Running Commentary voru Panamaskjölin svokölluðu, og sakaði hún m.a. eiginkonu Muscat forsætisráðherra, ferðamálaráðherra í ríkisstjórn Muscat og ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins, þá Konrad Mizzi og Keith Schembri, um að vera eigendur skúffufélaga í Panama sem tækju við leynilegum styrkjum fyrir milligöngu félags í eigu maltneska kaupsýslumannsins Yorgen Fenech, 17 Black.

Í kjölfar umfjallana Galizia var boðað til kosninga í Möltu, en þrátt fyrir skandalinn héldu Muscat og félagar völdum. Aðeins örfáum mánuðum síðar var bílaleigubifreið, sem Daphne hafði til leigu, sprengd í loft upp í nágrenni við heimili hennar. Síðasta greinin sem birtist á Running Commentary fjallaði um réttarhöld vegna meintrar spillingar Schembri, þar sem hann neitaði staðfastlega sök.

Í viðbrögðum sínum við morðinu á blaðakonunni árið 2017 sagði Muscat að allir vissu að Galizia hefði verið hans harðasti gagnrýnandi, en að enginn gæti réttlætt villimannslegt morðið á henni. „Ég mun ekki hvílast þar til réttlætinu hefur verið fullnægt,“ sagði forsætisráðherrann jafnframt.

Hver var þessi blaðakona sem valdamiklir aðilar í maltnesku samfélagi …
Hver var þessi blaðakona sem valdamiklir aðilar í maltnesku samfélagi vildu feiga og lést í bílsprengju skammt frá heimili sínu 16. október 2017? AFP

Annað hefur hins vegar komið á daginn og hefur Muscat heitið því að hann muni segja af sér í byrjun næsta árs í kjölfar þess að Mizzi og Schembri sögðu af sér embættum sínum 26. nóvember síðastliðinn, auk fjármálaráðherrans Chris Cardona, sem Daphne hafði sakað um að heimsækja vændishús í opinberri heimsókn til Þýskalands í janúar 2017, vegna nýrra upplýsinga í rannsókn lögreglu á morðinu á Galizia, og hefur Muscat heitið því að hann muni segja af sér í byrjun árs 2020.

Ekki öll kurl komin til grafar

Dregið hefur til tíðinda í rannsókn maltnesku lögreglunnar á morðinu á Daphne undanfarna daga og vikur, og hafa ráðherrarnir fyrrverandi, Schembri og Cardona, báðir verið handteknir og yfirheyrðir af lögreglu, en verið látnir lausir að skýrslutökum loknum. Hins vegar handtók lögreglan Fenech, eiganda félagsins sem hafði milligöngu um greiðslur til skúffufélaga ráðherranna í Panama, í síðustu viku er hann reyndi að flýja land á snekkjunni sinni og var hann leiddur fyrir dómara á laugardag og ákærður fyrir aðild að morðinu á blaðakonunni.

Áður en hann var ákærður hafði Fenech óskað eftir sakaruppgjöf í skiptum fyrir upplýsingar um morðið á Galizia, auk upplýsinga um spillingu þeirra Schembri og Mezzi, en ríkisstjórn Möltu varð ekki við beiðni hans.

Ljóst er að Galizia eignaðist fjölmarga óvini meðal æðstu ráðamanna Möltu með skrifum sínum og í viðtali eftir morðið hefur sonur hennar, Matthew, viðurkennt að fjölskyldan hefði mátt vita að þetta myndi enda svona. Þó að fjöldi manns hafi verið handtekinn og fjórir verið ákærðir fyrir aðild að morðinu, þeirra á meðal mennirnir þrír sem framkvæmdu verknaðinn, virðast alls ekki öll kurl verið komin til grafar, enda liggur ekki fyrir hver það var sem fyrirskipaði morðið og hvers vegna.

Umfjöllun Guardian

Umfjöllun BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert