Írönsk stjórnvöld sögð hafa stráfellt mótmælendur

Mótmælendur lokuðu víða vegum í mótmælunum, sem snerust um 50% …
Mótmælendur lokuðu víða vegum í mótmælunum, sem snerust um 50% hækkun bensínsverðs. Frá mótmælum í borginni Isfahan 16. nóvember. AFP

Talið er að minnsta kosti 180 manns hafi verið drepin af írönskum stjórnvöldum í mótmælunum sem spruttu upp í landinu fyrir um tveimur vikum. Óttast er að hundruð til viðbótar hafi verið drepin í aðgerðum stjórnvalda, sem í frétt New York Times eru sagðar þær mannskæðustu frá írönsku byltingunni árið 1978.

Mótmælin hófust fyrir um það bil tveimur vikum vegna 50% hækkunar á eldsneyti. Þremur sólarhringum síðar höfðu mótmælin breiðst út víða og bálreitt fólk stormaði út á göturnar og krafðist þess að klerkastjórnin segði af sér.

Á fjórum dögum eftir að mótmæli breiddust út eru stjórnvöld sögð hafa barið þau niður með fordæmalausri hörku. Sögur berast nú af því að á bilinu 180 — 450 manns hafi verið drepin og mögulega hundruð til viðbótar.

Frá borginni Isfahan 17. nóvember síðastliðinn. Mótmælendur kveiktu í þessum …
Frá borginni Isfahan 17. nóvember síðastliðinn. Mótmælendur kveiktu í þessum strætisvagni. AFP

Þá eru að minnsta kosti 2.000 manns særð og 7.000 í haldi yfirvalda, samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasamtökum, stjórnarandstöðuhreyfingum og blaðamönnum í landinu.

Á mörgum stöðum, samkvæmt frétt New York Times, skutu öryggissveitir stjórnvalda á óvopnaða mótmælendur, sem flestir voru atvinnulausir eða tekjulágir ungir karlmenn. Vitni og heilbrigðisstarfsfólk lýsa því að í borginni Mashsharh í suðvesturhluta landsins hafi hermenn byltingarvarðanna umkringt og drepið 40-100 mótmælendur sem höfðu reynt að leita skjóls í votlendi. Flestir eru sagðir hafa verið óvopnaðir ungir karlar.

New York Times hefur rætt við sex manns sem voru í Mashsharh dagana sem mótmælin stóðu yfir og eru vitnisburðir þeirra einróma um gríðarlega hörku stjórnarhersins gegn mótmælendum. Hjúkrunarkona á spítalanum í borginni, sem hlúði að þeim særðu, sagði flesta hafa verið skotna í höfuðið og bringuna.

Bensínstöðvum var víða rústað. Mynd tekin í borginni Eslamshahr, nærri …
Bensínstöðvum var víða rústað. Mynd tekin í borginni Eslamshahr, nærri Teheran, 17. nóvember. AFP

Uppþot varð í íranska þinginu 25. nóvember er fulltrúi borgarinnar reiddist og spurði hvað stjórnvöld hefðu gert í Mashsharh sem fyrrverandi Íranskeisari hefði ekki gert í byltingunni árið 1978. Þingmaðurinn var tekinn hálstaki af öðrum þingmanni eftir að hann lét þessi orð falla.

Yfirvöld vísa tölum um látna á bug en gefa lítið upp

Yfirvöld hafa neitað að gefa upp hversu margir létust í aðgerðum þeirra og hafa vísað þeim tölum um mannfall, sem mannréttindasamtök og fleiri hafa haldið fram, á bug. Abdolreza Rahmani Fazli innanríkisráðherra landsins hefur þó tjáð sig um umfang mótmælanna.

Mótmælendur á bandi stjórnvalda koma saman á fundi í Teheran …
Mótmælendur á bandi stjórnvalda koma saman á fundi í Teheran 25. nóvember til þess að fordæma óeirðirnar í landinu. AFP

Hann sagði við ríkisfjölmiðil landsins að mótmæli hefðu átt sér stað í 29 af 31 héraði landsins og að mótmælendur hefðu ráðist gegn 50 herstöðvum. Þá lýsti hann því að skemmdir hefðu verið unnar á 731 banka, 140 almannarýmum á borð við garða og torg, níu trúarmiðstöðvum, 70 bensínstöðum, 307 ökutækjum, 183 lögreglubílum, 1.076 mótorhjólum og 34 sjúkrabílum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert