Heimsleiðtogar virðast hæðast að Trump

Trudeu, Johnson og Anna prinsessa.
Trudeu, Johnson og Anna prinsessa. AFP

Myndskeið frá móttöku leiðtoga aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins í Buckinghamhöll virðist sýna þrjá leiðtoga hæðast að Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Um er að ræða upptöku af samtali nokkurra gesta, m.a. Boris Johnsons, forsætisráðherra Bretlands, Justins Trudeaus, forsætisráðherra Kanada, Emmanuels Macrons Frakklandsforseta og Önnu prinsessu, þar sem virðist rætt um ástæður þess að einhver ónefndur hafi mætt seint.

Ekki kemur fram um hvern er rætt, en Trudeu heyrist segja að umræddur hafi orðið of seinn því hann haldi óvænta 40 mínútna langa blaðamannafundi. Teljast verður líklegt, samkvæmt umfjöllun Guardian, að verið sé að ræða Bandaríkjaforseta, en hann hélt 50 mínútna langan handritslausan blaðamannafund í Lundúnum í gær.

Skömmu síðar lýsir Trudeau því hvernig starfslið ónefnds leiðtoga hafi misst kjálkana í gólfið, en hann virðist þar beina orðum sínum að Önnu prinsessu og má því telja líklegt að hann sé að vísa til atviksins þegar Anna tók ekki þátt í að heilsa Trump ásamt konungsfjölskyldunni.

Bandaríkjaforseti hefur brugðist við birtingu myndskeiðsins og segir Trudeau leika tveimur skjöldum. Hann hafi gagnrýnt Trudeau fyrir framlög Kanada til Atlantshafsbandalagsins og nágranni hans hafi ekki verið ánægður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert