Yfir 200 handteknir í aðgerðum gegn peningaþvætti

Aðgerðirnar beindust að svokölluðum peningaburðardýrum (e. money mules) en það …
Aðgerðirnar beindust að svokölluðum peningaburðardýrum (e. money mules) en það eru einstaklingar sem taka – oft óafvitandi – þátt í peningaþvætti með því að taka á móti og færa fjármuni sem eiga sér ólögmætan uppruna á milli bankareikninga eða landa. AFP

Samræmdar aðgerðir löggæsluyfirvalda í 31 Evrópuríki, með stuðningi Europol, Eurojust og evrópska bankasambandsins EBF, leiddu til þess að 228 einstaklingar voru handteknir í haust vegna peningaþvættis, frá september og fram í nóvember. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Europol.

Aðgerðirnar beindust að svokölluðum peningaburðardýrum (e. money mules) en það eru einstaklingar sem taka – oft óafvitandi – þátt í peningaþvætti með því að taka á móti og færa fjármuni sem eiga sér ólögmætan uppruna á milli bankareikninga eða landa. Samkvæmt tilkynningu Europol voru borin kennsl á rúmlega 3.800 peningaburðardýr í aðgerðinni, en þeir sem voru handteknir voru úr hópi þeirra sem fengu eða blekktu burðardýrin til verka.

Samkvæmt tilkynningu Europol eru glæpamenn byrjaðir að færa sig yfir á samfélagsmiðla í auknum mæli og aukning hefur orðið á því að burðardýr séu fundin á einkamálasíðum á netinu. Fórnarlömbin, sem svo verða burðardýr, eru stundum blekkt til þess að opna bankareikninga sína og framkvæma færslur sem eru í raun peningaþvætti. Mismunandi er eftir ríkjum hvaða refsingu peningaburðardýr gætu fengið fyrir slíkt afhæfi.

#EKKIVERABURÐARDÝR

Til þess að auka árvekni almennings gagnvart þessari tegund svika fer af stað evrópsk herferð í dag, undir kassamerkinu #dontbeamule eða #ekkiveraburðardýr. Markmiðið er að upplýsa almenning um hvernig svik sem þessi eiga sér stað, hvernig er hægt að verjast þeim og hvað skuli gera ef fólk verður fórnarlamb glæpa sem þessara.

Hér að neðan er skýringarmyndband á ensku um það hvernig glæpamenn nota peningaburðardýr til þess að framkvæma peningaþvætti.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert