Slepptu báðir vísindamönnum úr fangelsi

Edward T. McMullen, sendiherra Bandaríkjanna í Sviss, tekur á móti …
Edward T. McMullen, sendiherra Bandaríkjanna í Sviss, tekur á móti Xiyue Wang þegar hann kom til Sviss í dag. Afhenti hann honum af því tilefni bandarískan fána. AFP

Fangaskipti áttu sér stað í dag á milli Bandaríkjanna og Írans sem þykja til marks um hugsanlega þíðu í samskiptum stjórnvalda í ríkjunum tveimur samkvæmt frétt BBC.

Fram kemur í fréttinni að Bandaríkjamenn hafi leyst úr haldi íranska vísindamanninn Massoud Soleimani og Íranir kínversk-bandaríska vísindamanninn Xiyue Wang.

Soleimani var handtekinn á flugvelli í Chicago á síðasta ári sakaður um að brjóta gegn viðskiptabanni Bandaríkjanna gegn Íran með því að hafa ætlað að flytja lífræn efni til Írans. Xiyue var handtekinn í Íran árið 2016 sakaður um „samstarf við erlend stjórnvöld“.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði á Twitter-síðu sinni í tilefni af fangaskiptunum: „Þakkir til Írans fyrir mjög sanngjarnar viðræður. Sjáið, við getum gert samning.“

Bæði stjórnvöld í Íran og Bandaríkjunum hafa þakkað Svisslendingum fyrir að taka að sér hlutverk sáttasemjara í viðræðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert