Fimm ára bjargaði smábarni í nístingskulda

Þorpið Venetie í Alaska er á afskekktum stað þar sem …
Þorpið Venetie í Alaska er á afskekktum stað þar sem miklar sveiflur eru í veðurfari og frostið getur orðið lífshættulegt. Ljósmynd/Twitter

Fimm ára barn, sem var skilið eitt eftir með 18 mánaða gömlu ungbarni í húsi í afskekktri byggð í Alaska-ríki í Bandaríkjunum, bar ungbarnið í nístingskulda rúmlega 1,5 km leið til nágranna eftir að húsið sem börnin dvöldu í varð rafmagnslaust. Bæði börn hlutu kalsár meðan á göngunni stóð enda var frostið á köflum 35 stig.

Þetta kom fram í tilkynningu fylkislögreglunnar í Alaska sem send var út á föstudag en atvikið átti sér stað á þriðjudaginn í síðustu viku. Global News, CNN, Fox News og fleiri erlendir fjölmiðlar greindu frá málinu.

Þrekvirki fimm ára barnsins, sem einungis var klætt í sokka og léttan klæðnað, átti sér stað í þorpinu Venetie í Alaska sem er afar afskekkt. Svo afskekkt í raun að lögreglumenn, sem svöruðu kalli nágrannans um að koma á vettvang eftir að barnið bankaði upp á, þurftu að taka flugvél á staðinn. Í þorpinu búa 175 manns og er það um 250 km norðan við Fairbanks í Alaska.

Konan sem skildi við börnin tvö, Julie Peter, hefur verið handtekin vegna gruns um að hafa stofnað velferð barnanna í hættu. Enn er óljóst hversu lengi börnin dvöldu á heimilinu án umsjónar eða hvernig Peter tengist börnunum.

Þorpið er mjög langt frá Anchorage, stærstu borg Alaska.
Þorpið er mjög langt frá Anchorage, stærstu borg Alaska. Ljósmynd/Twitter
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert