Hefur áhyggjur af hatrinu sem Greta mætir

Greta Thunberg hefur ekki legið á skoðunum sínum.
Greta Thunberg hefur ekki legið á skoðunum sínum. AFP

Faðir Gretu Thunberg segir að hann hafi talið það vonda hugmynd fyrir dóttur sína að verða í framvarðasveit baráttunnar gegn loftslagsbreytingum. Milljónir jarðarbúa hafa bæst í hóp þeirra sem taka þátt í baráttunni gegn loftslagsvánni vegna aðgerða 16 ára gamallar stúlku frá Svíþjóð. Umhverfismál voru helsta umfjöllunarefni þáttar á BBC í gær. 

Svante Thunberg segir í viðtali við BBC að hann hafi ekki stutt dóttur sína í að skrópa í skólanum fyrir loftslagsverkföllin. Hann segir að Greta sé mun hamingjusamari eftir að hún varð aðgerðasinni en hann hefur áhyggjur af öllu því hatri sem hún mætir. 

Í sama þætti á BBC spjölluðu Greta og Sir David Attenborough saman um loftslagsmál. Að sögn Attenborough vakti Greta heiminn til vitundar um loftslagsmál. Hún hafi á stuttum tíma náð fram hlutum sem aðrir hafi reynt að gera undanfarna tvo áratugi án árangurs. Að hún sé eina ástæðan fyrir því að loftslagsbreytingar urðu eitt af helstu málefnum í kosningunum í Bretlandi nýverið.

Greta hringdi í hann í gegnum Skype en hún er stödd heima hjá sér í Stokkhólmi. Hún segir að David Attenborough hafi haft mikil áhrif á sig og baráttuna gegn loftslagsbreytingum.

Mishal Husain, þáttastjórnandi á BBC, flaug til Svíþjóðar til að ræða við Gretu og Svante Thunberg og spurð út í ákvörðunina um að fljúga þangað segir ritstjóri Today á BBC að ekki hafi gefist tími fyrir aðra ferðamáta. Aftur á móti hafi tökumaðurinn verið í Svíþjóð og samtal Attenborough og Gretu hafi verið í gegnum Skype. 

Dæturnar skipta mestu máli

Svante Thunberg segir að dóttir hans hafi glímt við þunglyndi í þrjú eða fjögur ár áður en hún hóf skólaverkföllin. „Hún hætti að tala, hún hætti að fara í skólann,“ sagði Thunberg. Hann segir að það hafi verið skelfilegt þegar Greta hætti að vilja að borða og til þess að fjölskyldan gæti eytt meiri tíma saman dró hann úr vinnu og móðir hennar, Malena Ernman, aflýsti tónleikum en hún er óperusöngkona. 

Umræðuefni fjölskyldunnar beindist oft að loftslagsmálum og rannsóknum á því sviði og hann segir að Greta hafi strax verið mjög áhugasöm um málefnið. Hún hefur harðlega gagnrýnt foreldra sína fyrir hræsni, segir hann í viðtalinu og vísar þar til mannréttindamála. 

Hann segir að Greta hafi haft mikil áhrif á þau og mamma hennar fljúgi ekki lengur og hann sé grænkeri. Hann sigldi meðal annars með dóttur sinni til New York og Madríd. 

„Ég gerði þetta og ég vissi að þetta er það rétta en ég gerði það ekki til að bjarga loftslaginu heldur gerði ég það til að bjarga barninu mínu,“ segir Thungberg í vitalinu. „Ég á tvær dætur og ef ég á að vera hreinskilin þá er það það eina sem skiptir mig máli. Ég vil bara að þær séu hamingjusamar,“ segir hann í viðtalinu. 

Thunberg segir að Greta hafi breyst mikið og orðið mjög hamingjusöm eftir að hún hóf aðgerðir í þágu loftslagsins. „Þið teljið að hún sé ekki venjuleg í dag þar sem hún er sérstök og hún er mjög fræg. En fyrir mér er hún núna venjulegt barn og hún getur gert alla sömu hluti og aðrir,“ segir hann. Hann segir Gretu afar glaða og hamingjusama og hún sé á góðum stað í lífinu. 

Allt frá því Greta hóf aðgerðir í þágu loftslagsins hefur fólk sem ekki vill gera breytingar á eigin lífsstíl atyrt hana og smánað. Pabbi hennar segist hafa miklar áhyggjur af öllum þeim lygafréttum og þeim skáldskap sem fólk spinnur upp í hatri sínu á henni. Sem betur fer taki dóttir hans vel á þessu og láti hatrið hafa lítil áhrif á sig.  

Hér er hægt að lesa frétt BBC í heild

Svante Thunberg fór með dóttur sinni siglandi til New York.
Svante Thunberg fór með dóttur sinni siglandi til New York. AFP
Greta Thunberg er sú manneskja sem sennilega hefur haft mest …
Greta Thunberg er sú manneskja sem sennilega hefur haft mest áhrif á árinu sem er að líða. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert