Feðgin skotin til bana á dádýraveiðum

Kim Drawdy og dóttir hans, Lauren.
Kim Drawdy og dóttir hans, Lauren. Ljósmynd/Twitter

Karlmaður og níu ára dóttir hans voru skotin til bana í Suður-Karolínu á miðvikudag er veiðimaður hélt að þau væru dádýr. Frá þessu greina yfirvöld í ríkinu. Fórnarlömbin, Kim Drawdy og dóttir hans, Lauren, voru í fjögurra manna hópi veiðimanna, sem unnu að því að komast í skotfæri við dádýr sem þau höfðu augastað á.

Ekki vildi þó betur til en svo að einn hinna veiðimannanna úr hópnum taldi feðginin sjálf vera dádýrin og skaut þau til bana.

Ættingjar feðginanna lýstu áfalli sínu í samtali við NBC-sjónvarpsstöðina. „Ég er niðurbrotinn. Ég trúði þessu ekki þegar ég heyrði þetta fyrst,“ sagði Benny Drawdy, bróðir Kim Drawdy, í samtali við NBC.

Slysið varð á einkalóð. Mælt er með að skotveiðimenn klæðist sérstökum appelsínugulum einkennisfatnaði til að ekki fari á milli mála að þeir séu ekki bráð. Notkun slíks einkennisfatnaðar er þó ekki skylda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert