Telja árásina brot gegn fullveldi Íraks

Mótmæli í gær í Írak gegn Bandaríkjunum.
Mótmæli í gær í Írak gegn Bandaríkjunum. AFP

Stjórnvöld í Írak hafa kvartað til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna vegna árásar Bandaríkjahers á bílalest við alþjóðaflugvöllinn í Bagdad, höfuðborg landsins, fyrir helgi þar sem íranski hershöfðinginn Qasem Soleimani var felldur.

Fram kemur í fréttum AFP að utanríkisráðuneyti Íraks hafi í dag boðað Matthew Tueller, sendiherra Bandaríkjanna, til fundar þar sem árás Bandaríkjamanna hafi verið fordæmd. Í yfirlýsingu frá ráðuneytinu segir að um brot á fullveldi Íraks hafi verið að ræða og farið í bága við samstarfið sem vera bandarísks herliðs í landinu byggir á.

AFP

Enn fremur kemur fram að búist sé við því að þing Íraks komi saman síðar í dag til þess að greiða atkvæði um það hvort fara eigi fram á það að þúsundum bandarískra hermanna verði gert að yfirgefa herstöðvar í landinu eftir að flugskeytum var skotið á herstöð í Bagdad og þann hluta borgarinnar þar sem bandaríska sendiráðið er til húsa.

Þá segir einnig í fréttum AFP að hryðjuverkasamtökin Hezbollah hafi í dag hvatt írösk stjórnvöld til þess að losa sig undan „hersetu“ Bandaríkjamanna. Bresk stjórnvöld hafa hins vegar hvatt ráðamenn í Íran til þess að nota tækifærið til þess að bæta samskiptin við vestræn ríki og taka þátt í því að draga úr spennu í Mið-Austurlöndum.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert