„Ekki fljúga, ekki gera það“

AFP

Ekkja flugstjóra úkraínsku farþegaþotunnar sem var skotin niður í Íran bað eiginmann sinn um að fljúga ekki þessa ferð vegna ótryggs ástands á þessu svæði. Þetta var þeirra síðasta samtal fyrir ferðina örlagaríku. „Ég bað hann: Ekki fljúga, ekki gera það,“ segir Katerina Gaponenko í samtali við Sky News.

Hún og Volodímír, sem eiga tvær ungar dætur, áttu ekki von á öðru en að fluginu yrði aflýst vegna vaxandi spennu í samskiptum Bandaríkjanna og Írans. En þegar það var ekki gert óttaðist hún um afdrif eiginmannsins. Daginn sem hann fór frá Úkraínu, 7. janúar, bað hún hann um að fara hvergi en hann sagði að hann yrði að fara. 

„Við getum ekki hætt við. Ef ég fer ekki þá er enginn annar til taks. Ef flogið er samkvæmt áætlun þá verð ég að fljúga,“ hefur hún eftir honum en Volodímír Gaponenko var afar reynslumikill flugmaður með langa starfsþjálfun. Hann flaug Boeing 737-þotunni frá Kænugarði til Teheran 7. janúar. Daginn eftir var brottför seinkað um klukkustund en kona hans veit ekki hvers vegna. Aðeins tveimur mínútum eftir flugtak var vélin ljóslogandi og brotlenti. Allir um borð, 176 manns, létust. 

Í nótt var greint frá því að Íranar hefðu skotið þotuna niður fyrir mistök. Forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, segir viðurkenningu stjórnvalda í Íran mikilvægt skref. 

Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að styðja fjölskyldur þeirra fjögurra Breta sem voru um borð og tryggja að þær fái svör og botn í málið eins og þær eiga skilið. 

Johnson segir að unnið verði náið með Kanada, Úkraínu og öðrum ríkjum í að tryggja hag þeirra sem eiga um sárt að binda. 

Forseti Írans, Hassan Rouhani, segir að rannsókn hersins sýni að flugskeyti hafi verið skotið á þotuna og að um ófyrirgefanleg mannleg mistök hafi verið að ræða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert