Texas tekur ekki við fleiri flóttamönnum

Greg Abbott, ríkisstjóri í Texas, situr fyrir miðju.
Greg Abbott, ríkisstjóri í Texas, situr fyrir miðju. AFP

Texasríki í Bandaríkjunum hefur sagt sig frá sameiginlegri flóttamannastefnu bandarískra stjórnvalda og mun ekki taka við fleiri flóttamönnum á næstunni. Þetta tilkynnti repúblikaninn Greg Abbott, ríkisstjóri Texas. BBC greinir frá.

Texas er fyrsta ríkið sem nýtir sér þessa heimild, en Donald Trump Bandaríkjaforseti undirritaði í september tilskipun þess efnis að einstök ríki Bandaríkjanna gætu sagt sig frá samkomulaginu, sem snýr að dreifingu flóttamanna milli ríkja Bandaríkjanna. Stjórnvöld í yfir 40 ríkjum Bandaríkjanna hafa þegar tilkynnt að þau muni halda sig við núgildandi stefnu.

Abbott sagði Texas hafa gert „meira en sinn hlut til að styðja við flóttamannakerfið“. Árið 2018 tók ríkið við 1.697 flóttamönnum, fleirum en nokkurt annað ríki, en þó umtalsvert færri en árið áður, er ríkið tók við 4.768 flóttamönnum.

Í rökstuðningi til innanríkisráðuneytis Bandaríkjanna sagði Abbott að ríkið ætti að einbeita sér að „þeim sem þegar eru hér, þar með talið flóttamönnum, innflytjendum og heimilislausum, sem allt eru íbúar Texas.“

Flóttamenn sem þegar hafa fengið hæli í öðrum ríkjum Bandaríkjanna geta, eftir sem áður, flutt til Texas óski þeir þess. Hins vegar ættu þeir ekki rétt á opinberum stuðningi, svo sem húsnæði.

Bandaríkin hafa aldrei tekið við færri flóttamönnum en um þessar mundir, en á þessu ári er ráðgert að 18.000 komi til landsins, samanborið við 30.000 árið áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert