Truflun og tíu sekúndur kostuðu 176 mannslíf

AFP

Truflanir í fjarskiptakerfi urðu til þess að flugskeyti var skotið á úkraínsku farþegaþotuna með þeim afleiðingum að 176 manns sem voru um borð í Boeing 737-þotunni létust. Fylkisforingi í írönsku byltingarvörðunum, Amirali Hajizadeh, segir að viðkomandi hafi verið einn að verki og hann hafi aðeins haft tíu sekúndur til þess að ákveða hvort hann ætti að skjóta eða ekki. Hann tók ákvörðun um að skjóta með þessum afleiðingum.

Að sögn Amirali Hajizadeh sprakk flugskeytið skammt frá þotunni sem hrapaði til jarðar skömmu síðar. Vegna þess að flugskeytið hæfði ekki farþegaþotuna, sem var að koma frá alþjóðaflugvellinum í Teheran, flaug flugvélin í einhvern tíma áður en hún hrapaði. „Hún sprakk þegar hún lenti á jörðinni.“

Forseti Úkraínu, Volodímír Zelenskí, mun ræða við starfsbróður sinn, Hassan Rouhani, á eftir en írönsk yfirvöld viðurkenndu í nótt að hafa grandað farþegaþotunni. Símafundurinn verður klukkan 15 að íslenskum tíma. Rouhani hefur lýst því yfir að stjórnvöld harmi þessi skelfilegu mistök.

Þarlend yfirvöld hafa nú veitt úkraínskum sérfræðingum aðgang að margvíslegum upplýsingum varðandi málið. Þar á meðal eru myndir, myndskeið og annað sem sýnir að rannsókn verði haldið áfram og hún unnin af festu, segir Zelenskí.

Hann hafði fyrr í morgun krafist þess að Íranar myndu veita Úkraníu fullan aðgang að gögnum flugslysanefndar. Eins að þeir sem bæru ábyrgð yrðu látnir gjalda þess og að miskabætur yrðu greiddar sem og beðist afsökunar. 

Árið 2014 var malasísk farþegaþota á leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur skotin niður í austurhluta Úkraínu og með henni fórust 296 eða allir um borð. Rannsókn leiddi í ljós að rússnesk eldflaug, BUK, sem skotið var á loft af aðskilnaðarsinnum hliðhollum Rússlandi, hefði grandað farþegaþotunni. Réttarhöld hefjast í mars yfir fjórum aðskilnaðarsinnum vegna málsins í Hollandi en rússnesk yfirvöld hafa ítrekað neitað að hafa komið að því að granda vélinni. 

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert