Mótmæli gegn stjórnvöldum í Íran

Íranskir námsmenn mótmæla stjórnvöldum eftir að þau viðurkenndu að hafa …
Íranskir námsmenn mótmæla stjórnvöldum eftir að þau viðurkenndu að hafa skotið niður úkraínska farþegaþotu. AFP

Mótmæli voru í Íran á laugardag eftir að stjórnvöld í landinu viðurkenndu að hafa fyrir mistök skotið niður úkraínsku farþegaþotuna sem þau höfðu áður neitað að hafa grandað. Nemendur við Amir Kabir-háskólann í Teheran fóru út á götur og mótmæltu stjórnvöldum ákaft. Nemendurnir fordæmdu „lygarana“ og kröfðust afsagnar þeirra sem ábyrgð bæru á að hafa skotið niður vélina og reynt að hylma yfir verknaðinn. 

Lögreglan dreifði mannfjöldanum en Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, varaði stjórnvöld í Teheran við að beita mótmælendur hörðu. „Það er ekki í boði að brytja aftur niður friðsama mótmælendur eða loka netinu. Heimurinn horfir á,“ skrifaði Trump á Twitter. 

Með skrifunum vísaði Trump til þess að stjórnvöld í Íran gripu til harkalegra aðgerða gegn mótmælendum í nóvember síðastliðnum og talið er að hundruð mótmælenda hafi fallið í þeim aðgerðum. 

Þá gerðist það einnig í Íran á laugardag að yfirvöld tóku sendiherra Bretlands fastan, en létu hann lausan skömmu síðar. Utanríkisráðherra Bretlands, Dominic Raab, sagði handtökuna tilhæfulausa og alvarlegt brot á alþjóðalögum. AFP hefur eftir Daily Mail að ástæða handtökunnar hafi verið að sendiherrann hafi hvatt til mótmælanna. Bandarísk stjórnvöld hvöttu írönsk stjórnvöld til að biðjast afsökunar á handtökunni, sem þau sögðu brjóta gegn Vínarsamningnum, en stjórnvöld í Íran hefðu ítrekað brotið gegn þeim samningi, sem fjallar um stjórnmálaleg samskipti ríkja. 

Mótmælaspjöldum með harðri gagnrýni á stjórnvöld var haldið á lofti.
Mótmælaspjöldum með harðri gagnrýni á stjórnvöld var haldið á lofti. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert