Fé safnað svo hægt verði að hringja Big Ben

AFP

Ríkisstjórn Bretlands vinnur að því að afla fjármagns frá almenningi og fyrirtækjum til þess að hægt verði að láta hina frægu klukku Big Ben hringja þegar Bretar yfirgefa Evrópusambandið formlega 31. janúar klukkan 23:00.

Fram kemur í frétt AFP að þingmenn hlynntir útgöngunni hafi hvatt til þess að gerðar verði ráðstafanir til þess að hægt verði að láta klukkuna hringja og að vonir um að af því yrði hafi aukist þegar John Bercow lét af embætti forseta neðri deildar breska þingsins fyrir áramót en hann hafði útilokað að klukkan myndi hringja.

Hins vegar kom babb í bátinn í gær þegar yfirstjórn breska þingsins var greint frá því að kostnaðurinn við að láta klukkuna hringja tíu sinnum vegna útgöngunnar úr Evrópusambandinu væri hálf milljón punda eða 80 milljónir króna.

Ástæðan er fyrst og fremst sú að viðgerðir hafa staðið yfir á klukkuturninum undanfarin ár og til þess að hægt sé að láta klukkuna hringja þarf að koma aftur fyrir búnaði tengdum klukkunni sem var fjarlægður tímabundið vegna viðgerðanna.

Boris Johnson forsætisráðherra er þó ekki af baki dottinn og hyggst safna fé á meðal almennings og fyrirtækja sem fyrr segir til þess að fjármagna hringinguna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert