Maðurinn á bak við slátrun jazída

Amir Mohammed Abdul Rahman al-Mawli al-Salbi.
Amir Mohammed Abdul Rahman al-Mawli al-Salbi. Ljósmynd/Wikipedia.org

Leyniþjónustur hafa borið kennsl á nýjan leiðtoga vígasamtakanna Ríkis íslams en hann heitir Amir Mohammed Abdul Rahman al-Mawli al-Salbi, samkvæmt frétt Guardian frá því í gær.

Heimildir Guardian koma frá yfirmönnum hjá tveimur leyniþjónustum og er sagt að hann sé einn af stofnendum vígasamtakanna. Hann hafi meðal annars leitt slátrun á jazídum í Írak. Jafnframt hafi hann stýrt aðgerðum vígasamtakanna víða um heim. 

Ríki íslams hafði nefnt Abu Ibrahim al-Hashimi al-Quraishi sem leiðtoga samtakanna aðeins nokkrum dögum eftir að leiðtogi þeirra, Abu Bakr al-Baghdadi, var drepinn í árás Bandaríkjahers í október.

Quraishi var í ágúst settur á lista bandarískra yfirvalda yfir hættulegustu menn heims þar sem hann væri líklegur arftaki Baghdadi. Voru settar fimm milljónir Bandaríkjadala til höfuðs honum. 

Samkvæmt Guardian var Salbi valinn leiðtogi aðeins nokkrum klukkustundum eftir dauða Baghdadi. Quraishi væri aftur á móti dulnefni. Í Guardian er Salbi lýst sem forhertum vígamanni af sama meiði og Baghdadi sem hefði aldrei kvikað frá hollustu við öfgasamtökin. Hann fæddist í bænum Tal Afar í Írak og er fjölskylda hans frá Túrkmenistan. Hann er einn örfárra í stjórnendahópi Ríkis íslams sem er ekki af arabískum uppruna. 

Salbi er með háskólagráðu í saría-lögum frá Mósúl og í Guardian kemur fram að í gegnum menntun sína hafi hann komist til valda. Það var hans trúarlegi úrskurður sem kvað á um þjóðarmorð á jazídum. 

Bandaríska utanríkisráðuneytið segir að hann sé einn helsti hugmyndafræðingur Ríkis íslams sem hafi átt ríkan þátt í ráni, slátrun og viðskiptum með þjóðarbrot jazída í norðvesturhluta Íraks.

Salbi var handtekinn af Bandaríkjaher árið 2004 og haldið í Camp Bucca fangelsinu í suðurhluta Íraks þar sem hann kynntist Baghdadi.

Frétt Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert