Embættismissir Trump myndi setja hættulegt fordæmi

Pat Cipollone fer fyrir teymi lögmanna sem halda utan um …
Pat Cipollone fer fyrir teymi lögmanna sem halda utan um málsvörn Donald Trump. AFP

Lögmenn Donalds Trump Bandaríkjaforseta hófu málflutning sinn, í réttarhöldum Bandaríkjaþings yfir forsetanum, í dag á því að saka demókrata um að reyna kollvarpa niðurstöðu forsetakosningarinnar árið 2016. Lögmenn forsetans hafa þrjá daga til að flytja mál sitt.

Fréttastofa BBC greinir frá.

Trump er ákærður til embættismissis og sakaður um að hafa misnotað vald sitt og hindrað framgang réttvísinnar meðal annars með því að hafa beitt úkraínsk stjórnvöld óeðlilegum þrýstingi í því skyni að koma höggi á pólitískan andstæðing sinn.

„Forsetinn gerði ekkert rangt,“ sagði Pat Cipollone, einn lögmanna forsetans, meðal annars í ræðu sinni í dag. Hann sagði einnig að demókratar væru að biðja öldungadeildarþingmenn, sem mynda kviðdóm í réttarhöldunum, að snúa við niðurstöðu forsetakosningarinnar þar sem Trump var kjörinn forseti og að það myndi setja hættulegt fordæmi.

„Það sem þeir eru að biðja ykkur um hefði afdrifaríkar afleiðingar og væri mjög, mjög hættulegt,“ bætti hann við.

Demókratar, sem sækja málið gegn Trump, hafa lokið sínum málflutningi. Adam Schiff, þingmaður fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, sagði í gær að Trump hefði misnotað vald sitt og hann myndi gera það aftur ef honum yrði leyft að sitja áfram í embætti.

Málflutningur hefst aftur á mánudag og eftir að honum lýkur munu öldungadeildarþingmenn taka afstöðu til þess hvort vitni verði kölluð fyrir þingið og hvort sækjendum verði heimilað að leggja ný sönnunargögn fram í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert