Biden og Sanders gagnrýna Buttigieg

Pete Buttigieg tekur í höndina á Bernie Sanders. Joe Biden …
Pete Buttigieg tekur í höndina á Bernie Sanders. Joe Biden fylgist með. AFP

Pete Buttigieg og Joe Biden, tveir þeirra sem vonast til að verða forsetaefni Demókrataflokksins vestanhafs, hafa skotið föstum skotum á hvor annan síðustu daga. Annar hluti forvals demókrata fer fram í New Hampshire á morgun.

Demókrataflokkurinn greindi frá því í gær að útlit væri fyrir að Buttigieg hefði unnið flesta kjörmenn í fyrsta forvalinu í Iowa-ríki en Biden hafnað í fjórða sæti. Fjölmörg tæknivandamál komu upp í forvalinu og miklar efasemdir hafa verið uppi um hversu marktækt kjörið var.

Biden birti myndskeið um helgina þar sem hann ber saman afrek sín sem varaforseti við afrek Buttigieg, sem var borgarstjóri South Bend. 

Biden virtist gera lítið úr Buttigieg og sagði meðal annars að Buttigieg hefði rekið svartan lögreglustjóra þegar hann var við störf í South Bend.

„Ákvörðun varaforsetans að birta þetta segir meira um stöðu hans en stöðu Buttigieg,“ sagði talsmaður borgarstjórans fyrrverandi.

Biden sagði hins vegar að hann hefði ekki ráðist á Buttigieg heldur væri það einmitt öfugt:

„Hann réðst á mig. Hann segir að vandamálin núna snúist um nýliðna hluti,“ sagði Biden og bætti við að þar væri Buttigieg að pota í forsetatíð Baracks Obama. „Ég skil það ekki.“

Buttigieg svaraði því til að hann væri ekki Obama en það væri Biden ekki heldur. „Enginn sem er að bjóða sig fram núna er Obama. Árið er 2020, ekki 2008 og kosningarnar snúast um hvert við stefnum,“ sagði Buttigieg.

Bernie Sanders, öldungadeildarþingmaðurinn frá Vermont sem einnig sækist eftir því að verða forsetaefni Demókrataflokksins, gagnrýndi einnig Buttigieg um helgina. Sanders, sem virðist hafa hafnað í öðru sæti í forvalinu í Iowa, sakaði borgarstjórann fyrrverandi um að safna kosningaframlögum frá milljarðamæringum.

Sanders sagði að Buttigieg hefði safnað fé frá 40 milljarðamæringum og það væri ljóst að hann ætlaði ekki að beita sér gegn þeim.

Buttigieg sagði hins vegar að Sanders væri „frekar ríkur“ og bætti því við að hann myndi þiggja framlag frá honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert