Xi lét sjá sig — Fleiri en 1.000 látnir

Xi Jinping, forseti Kína, lætur mæla sig á sjúkrahúsi í …
Xi Jinping, forseti Kína, lætur mæla sig á sjúkrahúsi í Peking í dag. AFP

Xi Jinping, forseti Kína, heimsótti heilbrigðisstarfsmenn á sjúkrahúsi í Peking í dag og lét mæla líkamshita sinn. Hann klæddist einnota hönskum og hafði andlitgrímu yfir vitum sínum eins og vinsælt er nú í Kína og víðar vegna mikillar útbreiðslu kórónuveiru sem á upptök sín í Wuhan í Kína. 

Fleiri en 1.000 eru látnir vegna veirunnar, en í kvöld tilkynntu heilbrigðisyfirvöld í Hubei-héraði að 103 hefðu látið lífið vegna veirunnar í dag. 

Xi Jinping hefur kallað veiruna djöfullega en hann hefur lítið sem ekkert komið fram opinberlega síðan faraldurinn fór að breiðast út í lok síðasta árs.

Nákvæmar mælingar mikilvægar

Xi hitti heilbrigðisstarfsfólk sem sinnir sjúklingum sem sýkst hafa af veirunni og sagði ástandið enn mjög alvarlegt. Ráðast þyrfti í nákvæmari mælingar á útbreiðslu hennar til þess að hægt væri að hefta útbreiðsluna. 

Xi hefur eins og áður segir lítið látið sjá sig opinberlega síðan veiran fór að breiðast út en um 42.200 manns hafa sýkst af henni í Kína. Xi hefur enn ekki heimsótt Wuhan.

Í síðustu viku lést læknir í Wuhan sem hafði reynt að vara við veirunni. Yfirvöld höfðu þá þaggað niður í honum en andlát læknisins vakti sorg og reiði sem birtist á samfélagsmiðlum og beindist að miklu leyti gegn ríkisstjórn Xi.

Fréttin hefur verið uppfærð með nýjustu upplýsingum um fjölda látinna frá Kína.

Skilaboð frá Embætti landlæknis vegna kórónuveirunnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert