Fullyrða að Huawei hafi leyndan bakdyraaðgang

AFP

Bandarísk yfirvöld segja að kínverska fyrirtækið Huawei hafi í meira en áratug haft „bakdyraaðgang“ að farsímakerfum sem fyrirtækið kemur að og reyna bandarísk yfirvöld nú, enn sem áður, að sannfæra bandamenn sína um að hefta aðgengi kínverska risans að mörkuðum sínum. Huawei neitar ásökunum Bandaríkjamanna alfarið.

Wall Street Journal fjallar um málið í dag og segir í frétt miðilsins að Bandaríkjamenn hafi deilt upplýsingum, sem sagðar eru sýna fram á þetta bakdyraaðgengi Huawei að farsímakerfum, sem seld hafa verið til fjölda ríkja, með bandamönnum sínum, þar á meðal Bretum og Þjóðverjum, seint á síðasta ári.

„Við höfum sönnunargögn fyrir því að Huawei sé fært um að komast óséð í viðkvæmar og persónulegar upplýsingar í þeim kerfum sem það viðheldur og selur um víða veröld,“ hefur Wall Street Journal eftir Robert O‘Brien, þjóðaröryggisráðgjafa Bandaríkjanna.

Sönnunargögnin sem Bandaríkjamenn segjast búa yfir hafa ekki enn verið gerð opinber, en Wall Street Journal hefur eftir ónefndum háttsettum embættismanni í Bandaríkjastjórn að Huawei láti farsímafyrirtækin sem það þjónustar ekki vita af þessum bakdyraaðgangi, né heldur þjóðaröryggisstofnanir viðkomandi ríkis, eins og þeim er skylt að gera.

Robert O'Brien, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna, segir að bandarísk yfirvöld hafi sönnunargögn …
Robert O'Brien, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna, segir að bandarísk yfirvöld hafi sönnunargögn fyrir því að Huawei sé fært um að komast óséð í viðkvæmar og persónulegar upplýsingar í þeim kerfum sem það viðheldur og selur um víða veröld. AFP

Viðmælendur Wall Street Journal innan Bandaríkjastjórnar neituðu að svara því hvort þarlend yfirvöld hefðu fylgst með Huawei hagnýta sér þennan aðgang á einhvern hátt, en sögðu að þeir hefðu vitað af tilvist hans allt frá því Huawei kom að uppsetningu 4G-farsímakerfa árið 2009.

Bretar leyfa Huawei að koma að 5G-netinu

Nú styttist í 5G-farsímanet og ríki heims eru óðum að vinna í því að koma sér upp dreifikerfum fyrir slíkt. Bandaríkjamenn telja ekki öruggt að Huawei komi þar nærri.

Þrátt fyrir mikla pressu frá bandarískum yfirvöldum ákváðu Bretar í janúarmánuði að leyfa Huawei að hafa aðkomu að uppbyggingu 5G-kerfisins þar í landi. Wall Street Journal segir frá því að breskir embættismenn segi þær upplýsingar, sem Bandaríkin létu þeim í té nýlega varðandi Huawei og þennan meinta bakdyraaðgang, ekki nýjar og að hliðsjón hafi verið höfð af þessum atriðum í greiningu á þeirri mögulegu ógn sem samstarf við kínverska fyrirtækið gæti haft.

Þýskir embættismenn sannfærðir eftir fund með Bandaríkjamönnum

Bandaríkjastjórn hefur lengi sagt að Huawei gæti verið þvingað til þess að stunda njósnir fyrir kínverska ríkið á erlendri grundu í gegnum farsímakerfi sín, en Huawei hefur ávallt neitað því. Talsmaður fyrirtækisins segir í svari til Wall Street Journal að nú séu Bandaríkjamenn enn einu sinni að setja fram haldlausar ásakanir á hendur tæknirisanum, án þess að leggja fram nokkur sönnunargögn.

Fyrir þýska þinginu liggur nú frumvarp sem felur í sér að Huawei verði leyft að hafa aðkomu að 5G-markaðnum þar í landi, ef kínverska fyrirtækið uppfylli ákveðnar öryggiskröfur. Þrjú stærstu símafélög Þýskalands nota öll Huawei-vörur í dreifikerfum sínum.

Wall Street Journal hafði samband við Deutche Telekom, sem er stærsta fyrirtækið á þýska markaðnum. Fyrirtækið sagðist ekki hafa áhyggjur af öryggi dreifikerfis síns, þar sem löglegi bakdyraaðgangur þess, sem ætlaður er yfirvöldum og eftirlitsaðilum hjá símafélaginu sjálfu, sé byggður af þýsku fyrirtæki, sem myndi koma alfarið í veg fyrir að Huawei kæmist þar inn óséð.

Fram kemur í grein Wall Street Journal að fulltrúi bandarískra stjórnvalda sem kynnti þýskum ráðamönnum gögnin sem Bandaríkjamenn hafa yfir að ráða hafi þó ná að að sannfæra marga þýska kollega sína á fundi í Berlín fyrir áramót.

Á leynilegu minnisblaði þýsku utanríkisþjónustunnar, sem blaðamaður Wall Street Journal hefur séð, segir að bandaríski fulltrúinn hafi kynnt óyggjandi sönnunargögn þess efnis að samstarf við Huawei fæli í sér hættu á njósnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert