Trump sagður hafa gert Assange gylliboð

Julian Assange, stofnandi Wikileaks.
Julian Assange, stofnandi Wikileaks. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er sagður hafa viljað náða Julian Aassange, stofnanda Wikileaks. Gjaldið sem Assange er sagður hafa þurft að greiða í staðinn er yfirhylming. Trump á að hafa farið fram á að Assange myndi fullyrða að Rússar hafi ekki komist yfir tölvupóstsamskipti demókrata í forsetakosningunum árið 2016, líkt og kom fram á vef Wikileaks.  

Dana Rohrabacher, fyrrrverandi þingmaður repúblikana, er sagður hafa gert Assange gylliboðið. Þetta kom fram í máli Edward Fitzgerald, lögmanns Assange, fyrir dómi í Lundúnum í dag. En mál Assange um það hvort hann verði framseldur til Bandaríkjanna þar sem hann er meðal annars ákærður fyrir aðild að tölvuinnbroti er nú fyrir breskum dómstólum.  

Fitzgerald sagði enn fremur að yfirlýsing frá öðrum lögmanni Assange, Jennifer Robinson, sýndi að Rohrabacher hafi hitt Assange. Á þeim fundi var tilboðið borið upp og í staðinn yrði Assange laus úr prísund sinni. Þessi fundur á að hafa átt sér stað í ágúst árið 2017 í sendiráði Ekvador þar sem Assange dvaldi.

Stephanie Grisham, blaðafulltrúi Hvíta hússins, vísaði þessum fullyrðingum á bug. Hún sagði málið „tilbúning“ og „algjöra lygi“, auk þess þekkti Trump Rohrabacher eingöngu sem fyrrverandi þingmann. 

Umræddum tölvupóstum var lekið á Wikileaks skömmu fyrir forsetakosningarnar árið 2016. Þeir snerust um að Hillary Clinton yrði frambjóðandi flokksins í stað Bernie Sanders. 

Þetta kemur fram á vef Breska ríkisútvarpsins, BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert