Níu látnir í tveimur skotárásum

Níu eru látnir eftir tvær skotárásir á vatnspípubörum í þýsku borginni Hanau. Nokkrir eru einnig særðir eftir árásirnar. Árásarmaðurinn fannst látinn á heimili sínu ásamt annarri manneskju undir morgun.

Samkvæmt upplýsingum frá þýsku lögreglunni hóf maðurinn að skjóta á gesti á Midnight-barnum í miðborginni um klukkan 22 að staðartíma, klukkan 21 að íslenskum tíma. Seinni árásin var gerð á Arena Bar & Cafe í Kesselstadt-hverfinu.  Hanau er í um það bil 20 km fjarlægð frá Frankfurt. 

Gríðarlegur viðbúnaður var hjá lögreglu og var árásarmannsins meðal annars leitað úr lofti og sveimuðu lögregluþyrlur yfir borginni í alla nótt. Hann fannst síðan á heimili sínu eftir að bifreið sem hann notaði á flóttanum fannst. Ekki er talið að árásarmennirnir hafi verið fleiri. 

Samkvæmt frétt Bild eru fórnarlömb árásarinnar á fyrri barnum Kúrdar. Þar voru þrír skotnir til bana fyrir framan barinn en árásarmaðurinn skaut tugum skota á staðnum. Árásarmaðurinn flúði þaðan á bíl og hóf síðan árás á seinni barnum skömmu síðar. Þar skaut hann fimm til bana en fólkið sat á reyksvæði barsins. 

Sonur eiganda barsins segir í samtali við DPA-fréttastofuna að þeir sem létust hafi verið fastagestir í mörg ár. Auk þess hafi árásarmaðurinn skotið tvo starfsmenn til bana. 

Blaðamaður AFP-fréttastofunnar sem var á vettvangi segir að lögreglan hafi verið þungvopnuð er hún leitaði árásarmannsins en ekki hefur verið gefið upp hver hann er. 

Fjölmargar árásir hafa verið gerðar í Þýskalandi undanfarin ár af hálfu öfgamanna. Á föstudag handtók lögreglan tólf liðsmenn þýskra öfgasamtaka þjóðernissinna sem undirbjuggu árásir á nokkrar moskur. Árásirnar áttu að vera svipaðar þeim og ástralski vígamaðurinn gerði á tvær moskur í Christchurch á Nýja-Sjálandi í fyrra. Sá skaut 51 til bana. 

Samtök múslima í Þýskalandi, Ditib, sem annast rekstur á um 900 moskum í landinu, biðla til stjórnvalda um að múslimar fái aukna vernd í landinu. Þeir upplifi sig ekki lengur örugga í Þýskalandi. Svipaða sögu er að segja af gyðingum en gyðingahatur hefur einnig aukist í Þýskalandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert