Skora á íslensk stjórnvöld að spyrna við fótum

Frá mótmælum í Istanbúl skömmu eftir að áætlun Bandaríkjamanna var …
Frá mótmælum í Istanbúl skömmu eftir að áætlun Bandaríkjamanna var kynnt í lok janúarmánaðar. AFP

Félagið Ísland-Palestína leggst alfarið gegn svokallaðri „friðaráætlun“ Jareds Kushners, ráðgjafa Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, sem gengur að mati félagsins í berhögg við alþjóðalög, samþykktir Sameinuðu þjóðanna og mannréttindi íbúa Palestínu. Þetta kemur fram í ályktun frá félaginu.

„Með áætlun Kushners er lögð frekari blessun yfir hernám Ísraela í Palestínu og ólöglegar landtökubyggðir þeirra, á meðan það litla land sem ætlað er Palestínumönnum er sundurskorið. Slíkar einangraðar landspildur þekktust á tímum aðskilnaðarstefnunnar, apartheid, í Suður-Afríku og kölluðust þá bantusans. Fyrirlitning Bandaríkjastjórnar gagnvart Palestínumönnum sést líka í því að þeir voru ekki hafðir með í ráðum, heldur settir afarkostir þar sem Kushner dylgjaði um hvernig þeir misstu af „tækifærum“ — án þess þó að útlista hvað þeim hafði í raun verið boðið eða að minnast nokkru orði á þau tækifæri sem Ísraelar hefðu misst af,“ segir í ályktun félagsins, sem hvetur íslensk stjórnvöld til þess að beita sér gegn áætlun Bandaríkjastjórnar.

„Íslensk stjórnvöld stigu mikilvægt skref árið 2011 með viðurkenningu Palestínu sem sjálfstæðs ríkis og vinna samkvæmt alþjóðasamþykktum. Þess vegna er mikilvægt að þau sporni við fótum þegar alþjóðalög eru að engu höfð og áætlanir lagðar fram sem ganga í berhögg við tveggja ríkja lausnina og að Palestínumenn geti lifað við frelsi og fullveldi í eigin ríki. Félagið Ísland-Palestína skorar á íslensk stjórnvöld að framfylgja stefnu sinni með því að lýsa því opinberlega að hún fordæmi þessa aðför að alþjóðasamþykktum og mannréttindum íbúa Palestínu. Varanlegur friður milli Ísraela og Palestínumanna mun aldrei nást nema hernáminu linni, alþjóðalög verði virt og mannréttindi höfð að leiðarljósi,“ segir í ályktun félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert