„Meðhöndluð eins og hundar“

Ronny Jensen og Veronica Eian, stirð í baki og úfin …
Ronny Jensen og Veronica Eian, stirð í baki og úfin í skapi eftir nótt á gólfinu sem þau standa á. Þau eru föst á Gran Canaria og yfir 2.000 Norðmenn (mörg þúsund segir upplýsingafulltrúi Norwegian) eru fastir á Kanaríeyjum á leið heim til Noregs. Öll hótel eru yfirfull vegna samgöngutruflana og hafa margir líklega lokið fríi sínu á þessum vinsælu sólareyjum á jákvæðari nótum en nú. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Við erum meðhöndluð eins og hundar, hvorki boðið vott né þurrt og þurfum að sofa á köldu gólfinu.“ Þetta sagði svekktur Ronny Jensen, Norðmaður á fimmtugsaldri á flugvellinum á Gran Canaria, í samtali við norska dagblaðið VG í gær og sagði farir sínar og fjölskyldu sinnar ósléttar eftir að öllu flugi til og frá Kanaríeyjum var aflýst um helgina vegna veðurfyrirbærisins Calima, sandfoks frá Sahara-eyðimörkinni austur af eyjunum vinsælu.

Jensen sagði fjölskylduna ekki hafa fengið nokkrar einustu upplýsingar. „Skrifstofa Norwegian segir okkur bara að hringja í þjónustuverið til að bóka nýtt flug og starfsfólk [ferðaskrifstofunnar] TUI hleypur bara í burtu,“ sagði Jensen og deildi enn fremur frásögn af því að hann og föruneytið hefðu sofið á hörðu gólfi flugstöðvarinnar aðfaranótt gærdagsins og gæti hann trauðla gengið fyrir bakverkjum eftir þann umbúnað en hvert hótelrými Gran Canaria og Tenerife er umsetið vegna ástandsins. 

Nú er veðrið að ganga niður og búið að opna flesta flugvellina, þó ekki suðurflugvöllinn á Tenerife, en lítið gengur þó að koma flugvélum SAS og Norwegian í loftið og sitja yfir 2.000 Norðmenn enn fastir á eyjunum þegar þetta er skrifað.

„Ákaflega svekkjandi aðstaða“

„Takmarkið er að koma farþegum okkar heim eins fljótt og auðið er. Til þess þurfa þó flugskilyrði að batna og þau líta ekki vel út sem stendur,“ segir John Eckhoff, upplýsingafulltrúi SAS, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK í morgun. Hann segir fíngerð sandkornin valda vandræðum og óvíst sé hvort það ástand batni yfir daginn. Flugvélar félagsins þurfi að standast skoðun eftir sandviðrið og flugvirkjar muni framkvæma þá skoðun og taka endanlega ákvörðun um hvort flogið verði í dag.

Lasse Sandaker-Nielsen, upplýsingafulltrúi Norwegian, segir NRK að „nokkur þúsund“ farþegar félagsins sitji fastir á Kanaríeyjum. „Þetta er ákaflega svekkjandi aðstaða fyrir farþega okkar. Veðrið breytist í sífellu og flugvellirnir hafa verið opnir og lokaðir á víxl yfir helgina,“ segir Sandaker-Nielsen og tekur undir það með starfsbróður sínum hjá SAS að hjá Norwegian sé ekkert vitað um hvort takist að koma fólki heim í dag.

Sól tér sortna. Tenerife South–Reina Sofia-flugvöllurinn í gær.
Sól tér sortna. Tenerife South–Reina Sofia-flugvöllurinn í gær. AFP

Hann segir félagið hafa reynt að útvega farþegum hótelherbergi en þar hafi verið á brattann að sækja þar sem öll hótel séu smekkfull. Ekki bæti úr skák að nú sé vetrarfrí í grunnskólum Noregs (sumum alla vega, fríunum er deilt niður á fylki landsins yfir þriggja vikna tímabil) og fjöldi fólks hafi hvort tveggja verið á leið til Kanaríeyja og til baka til Noregs úr fríi.

Spurður út í takmarkaða upplýsingagjöf til farþega í óvissuástandi segir Sandaker-Nielsen: „Þetta er mjög erfitt ástand fyrir farþegana en á hinn bóginn hefur það ekki verið auðvelt að gefa upplýsingar þar sem við höfum ekkert að upplýsa um. Við vitum alveg jafnlítið og farþegarnir okkar um hvenær við komumst í loftið.“

Flugi Norwegian sem átti að fara í loftið frá Ósló til Las Palmas klukkan níu í morgun, átta að íslenskum tíma, hefur verið frestað um óákveðinn tíma. „Þeir sem eiga að fara með því flugi fá bein skilaboð frá okkur með SMS-skilaboðum,“ fullvissar upplýsingafulltrúinn fréttamann NRK um.

Maiken Wikestad Tobiassen átti að fljúga til Noregs frá Tenerife í gærkvöldi en er þar enn ásamt manni og börnum. „Núna var verið að tilkynna í hátalarakerfinu að fluginu væri aflýst,“ sagði Tobiassen við NRK um miðnætti í gær, „við fáum ekki hótelherbergi og verðum að sofa á flugvellinum með börnin.“

NRK

VG

VGII (Nora og Sofie fastar á Gran Canaria)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert