52 slösuðust þegar bíl var ekið á hóp fólks

35 manns liggja enn á sjúkrahúsi eftir árásina.
35 manns liggja enn á sjúkrahúsi eftir árásina. AFP

Alls slösuðust 52 þegar bíl var ekið inn í mannfjölda þar sem karnival fór fram í bænum Volks­m­arsen í Þýskalandi í gær. Af þeim eru 18 börn en fólkið er á aldrinum tveggja til 85 ára. Alls liggja enn 35 manns á sjúkrahúsi. Lögreglan greindi frá því að tala særðra hefði fjölgað frá því í gær.  

29 ára gamall Þjóðverji var handtekinn á vettvangi. Hann hefur verið yfirheyrður en lögreglan vill ekki gefa upp mögulega ástæðu verknaðarins né ástand ökumannsins þegar hann var handtekinn. Annar maður til viðbótar var handtekinn en hann er grunaður um að taka upp athæfið í þeim tilgangi að deila á samfélagsmiðlum. Lögreglan varar fólk við slíku myndefni; að deila því áfram sem og að skrifa ummæli um slíkt. 

Rannsókn lögreglu stóð yfir langt fram á nótt.
Rannsókn lögreglu stóð yfir langt fram á nótt. AFP

Maðurinn ók silfurlitum Mercedes-Benz inn í hóp fólks þar sem karnival fór fram. Börn og full­orðnir klæddu sig upp í bún­inga og fóru í skrúðgöng­ur. Tónlist er spiluð og sæl­gæti fleygt yfir mann­skap­inn.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur vottað fórnarlömbum og aðstandendum þeirra samúð sína. 

Þjóðverj­ar eru enn að jafna sig eft­ir skotárás í borg­inni Hanau sem átti sér stað síðastliðinn miðviku­dag, en þá lét­ust tíu manns eft­ir að karl­maður hald­inn mikl­um kynþátta­for­dóm­um skaut á fólk á bar og kaffi­húsi. Mann­skæðasta árás­in í Þýskalandi síðari ár var þegar öfga­trúamaður keyrði á gang­andi veg­far­end­ur á jóla­markaðnum í Berlín árið 2016 og varð 12 manns að bana.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert