Íhuga að nota gúmmíhanska á flugvellinum

Leiðsögumenn eru undirbúnir fyrir komu kórónuveirunnar COVID-19.
Leiðsögumenn eru undirbúnir fyrir komu kórónuveirunnar COVID-19. AFP

„Við leiðsögumenn erum búnir að fá leiðbeiningar um hvernig við eigum að taka á þessum málum,“ segir Trausti Hafsteinsson sem starfar sem leiðsögumaður á Tenerife, fyrir ferðaskrifstofuna Heimsferðir, um viðbrögð við kórónuveirunni COVID-19. Leiðbeiningar frá sóttvarnalækni eru skýrar, að mati Trausta. 

Í dag kemur full vél af Íslendingum sem Trausti er að undirbúa að taka á móti. Stór hópur Íslendinga fer einnig með flugi frá eyjunni og heim til Íslands í dag. „Við erum enn að glíma við aflýsingu flugferða um helgina vegna sandstorms og erum með fjölda strandaglópa,“ segir hann.  

Trausti segist ágætlega undirbúinn en hann er búinn að kaupa sér einnota hanska og er með sprittbrúsa í vasanum. Grímur eru einnig innan seilingar en þær þurfti að nota um helgina þegar sandstormurinn gerði íbúum lífið leitt.  

Rétt að taka fréttunum alvarlega

„Við vorum að ræða það áðan hvort það væri réttast, að gera það að minnsta kosti á flugvellinum,“ segir hann, spurður hvort hann muni taka á móti ferðamönnum í dag með gúmmíhanska. Hann ítrekar að það sé rétt að taka þessum fréttum af kórónuveirusmitinu alvarlega en sjálfur er hann nokkuð rólegur yfir stöðunni. „Þetta er enn sem komið er einangrað tilfelli og brugðist hefur verið skjótt við. Nýlega tókst að einangra annað tilvik hér á eyjunum og koma í veg fyrir útbreiðslu,“ segir hann. 

Farþegar höfðu sett sig í samband við Trausta í morgun og spurt meðal annars fregna af viðbrögðum yfirvalda við veirunni. Eins og fyrr segir hafa allir gestir og starfsmenn hótelsins verið settir í einangrun og maðurinn sem greindist með veiruna er í einangrun á sjúkrahúsi. Þetta eru helstu viðbrögð þeirra, núna að minnsta kosti. 

Trausti Hafsteinsson, leiðsögumaður á Tenerife.
Trausti Hafsteinsson, leiðsögumaður á Tenerife. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert