Kórónuveiran breiðist út á Ítalíu

Kórónuveiran breiðist hratt út á Ítalíu og er ekki lengur bundin við tvö héruð í norðurhluta landsins. Í dag var staðfest að tveir hafi greinst smitaðir í Toskana og eitt tilvik er staðfest á Sikiley.

Forsætisráðherra Ítalíu, Giuseppe Conte, segir að ástæðuna fyrir því hversu hratt sjúkdómurinn breiðist út megi rekja til lélegrar stjórnunar sjúkrahúss á Norður-Ítalíu. Sjö eru látnir úr COVID-19-veirunni á Ítalíu. Annað af tveimur tilvikum í Toskana greindist í Flórens sem er einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna í landinu. Á Sikiley greindist kona, sem er ferðamaður frá Lombardia-héraði, smituð. Hún hefur búið á hóteli í borginni Palermo að undanförnu. Alls eru 212 staðfest smit í Lombardia.

AFP

Síðar í dag munu heilbrigðisráðherrar nágrannaríkja Ítalíu koma til Rómar þar sem fundað verður um framhaldið. Alls eru 283 smitaðir af COVID-19-veirunni á Ítalíu en tilvikum fjölgaði um 50 síðasta sólarhringinn. 

Nágrannaríki Ítalíu hafa í einhverjum tilvikum lagt bann við ferðalögum yfir landamæri Ítalíu, ekki síst til Lombardia og Veneto.

AFP

Nokkrir leikir í ítölsku úrvalsdeildinni og Evrópudeildinni verða spilaðir fyrir luktum dyrum til að koma í veg fyrir smit. Eins hefur tökum á nýjustu Mission: Impossible-myndinni, með Tom Cruise í aðalhlutverki, verið frestað í Feneyjum. 

Samkvæmt upplýsingum frá ítölskum yfirvöldum er miðpunktur farsóttarinnar bærinn Codogno en hann er í um 60 km fjarlægð frá Mílanó. Alls búa þar um 15 þúsund manns. 

Codogno og nokkrir aðrir bæir á Norður-Ítalíu hafa verið settir í einangrun í þeirri von að stöðva dreifingu kórónuveirunnar. 38 ára gamall karl, sem nefndur eru sjúklingur 1 í ítölskum fjölmiðlum, var lagður inn á sjúkrahús í Codogno á miðvikudag. Er talið að stóran hluta tilvikanna í Lombardia-héraðinu megi rekja til hans. Má þar nefna þungaða eiginkonu hans, nokkra lækna, annað starfsfólk sjúkrahússins og sjúklinga á sjúkrahúsinu. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert