Blaðamaður skotinn til bana í Pakistan

Landamæri Pakistans og Írans við Taftan.
Landamæri Pakistans og Írans við Taftan. AFP

Pakistanskur blaðamaður var skotinn til bana seint í gærkvöld í norðvesturhluta landsins. Maðurinn var 36 ára og þótti „ákaflega hugrakkur blaðamaður“ að mati alþjóðlegu mannréttindasamtakanna Amnesti International.

Samtökin hafa jafnframt kallað eftir sjálfstæðri rannsókn á morðinu. Enn sem komið er hafa engin öfgasamtök lýst ódæðinu á hendur sér.   

Blaðamaðurinn Javedullah Khan var á ferðalagi um Matta sem er um 40 kílómetra norðvestur af hinum rómaða Swat-dal. Hann var með lögreglufylgd á ferð sinni en þrátt fyrir það komu ódæðismenn akandi upp að bíl hans og skutu hann til bana. Hann lést samstundis. „Þetta var aftaka,“ sagði Ali Muhammad lögreglumaður um morðið.  

Khan starfaði fyrir dagblaðið Ausaf sem gefið er út á tungumálinu Urdu í Pakistan.    

Pakistan þykir með hættulegustu löndum að starfa sem blaðamaður. Blaðamenn þar í landi eru iðulega sviptir frelsi, beittir ofbeldi og jafnvel myrtir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert