Er kórónuveiran faraldur eða upplýsingafaraldur?

Kórónuveiran lítur svona út.
Kórónuveiran lítur svona út. AFP

Pietro Mazzocchi, bæjarstjóri Borgonovo á Ítalíu, varð fyrsti ítalski bæjarstjórinn sem greinist með kórónuveiruna. Þar í landi hefur veiran breiðst hraðast út allra Evrópulanda. 528 einstaklingar hafa greinst með veiruna og 14 látist.

„Bæjarstjórar eru í fremstu víglínu. Þeir fylgjast náið með öllu og það á jafnt við um þegar vel eða illa gengur,“ segir bæjarstjórinn í símtali við AFP-fréttastofuna heiman frá sér þar sem hann er í heimasóttkví. Hann ber sig vel þrátt fyrir veikindin en hann er með hita og hósta. 

Þegar sonur hans tók að veikjast nýverið, með hita og nefrennsli, lét hann athuga hvort hann væri með veiruna og svo reyndist vera. Hann ítrekar að hann sé „ekki sérlega áhyggjufullur“ yfir því að greinast með veiruna. 

Bærinn Borgonovo, þar sem um 8.000 manns búa, er í Emilia Romagna-héraði á Norður-Ítalíu skammt frá landamærum Lombardy eða Langbarðalands. Þar hefur 10 bæjum verið lokað og 50.000 manns í reynd í sóttkví.

Margir íbúar kjósa að nota andlitsgrímu vegna hættu á smiti.
Margir íbúar kjósa að nota andlitsgrímu vegna hættu á smiti. AFP

 

Bæjarstjórinn segist ekki vita hvernig hann smitaðist og kveðst ekki hafa verið á faraldsfæti heldur haldið sig í sínu heimahéraði og hafi alls ekki ferðast inn á rauða svæðið.

Núna reynir hann að muna eftir öllum þeim sem hann hitti á síðustu dögum. Þeir eru fjölmargir og eru til að mynda starfsmenn í ráðhúsinu 30 talsins.      

Utanríkisráðherra talar um „upplýsingafaraldur“

Ekki eru allir sammála um hvernig beri að haga fréttaflutningi af kórónuveirunni. Sumir Ítalir benda á að hann einkennist af æsifréttastíl. Luigi Di Maio, utanríkisráðherra Ítalíu, segir fréttirnar „upplýsingafaraldur“ sem innihalda misvísandi fréttir.

Það sé til þess fallið að skaða ímynd og efnahag landsins. Hann bendir enn fremur á að upphaf smitsins megi rekja til tveggja staða á Norður-Ítalíu. Nú þegar hefur bókunum fækkað til muna til landsins. 

Kórónuveiran hefur greinst í rúmlega 82.000 manns í öllum heiminum. Þar af hafa 2.760 manns látist og yfir 40 utan Kína þar sem veiran á uppruna sinn, samkvæmt nýjustu tölum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. 

Dauðsföllum fækkar í Kína en fjölgar í Evrópu. Kórónuveiran hefur greinst í yfir 45 löndum. Í Suður-Kóreu hafa 1.600 manns greinst og 12 dáið.

Þetta kemur fram á BBC og AFP. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert