Ríkisstjórn Sviss frestar stórum viðburðum

Fólk í biðröð eftir andlitsgrímum í borginni Daegu í Suður-Kóreu.
Fólk í biðröð eftir andlitsgrímum í borginni Daegu í Suður-Kóreu. AFP

Ríkisstjórn Sviss hefur ákveðið að fresta öllum viðburðum í landinu með fleiri en eitt þúsund þátttakendum til 15. mars til að koma í veg fyrir útbreiðslu kórónuveirunnar.

„Stórir viðburðir með fleiri en eitt þúsund manns verða bannaðir. Bannið tekur gildi nú þegar og mun gilda að minnsta kosti þangað til 15. mars,“ sagði í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Níu manns hafa greinst með veiruna í landinu.

„Þegar um er að ræða opinbera eða einkaviðburði með færri en eitt þúsund manns verða skipuleggjendur að útbúa áhættumat í samráði við sveitarstjórnir til að ákveða hvort hægt er að halda þá eða ekki,“ sagði einnig í yfirlýsingunni. 

Ríkisstjórnin bætti því við að hún átti sig á því að ákvörðunin muni hafa umtalsverð áhrif á líf almennings í Sviss en bætti við að vonandi verði hún til þess að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu veirunnar.

Heilbrigðissráðherrann Alain Berset sagði að svipaðar aðgerðir hefðu reynst árangursríkar í öðrum löndum. Hann sagði að fjöldi smitaðra í landinu kæmi stjórnvöldum ekki á óvart. „Við verðum að vera viðbúin fleiri tilfellum á næstu dögum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert