Sögð leyna dauðsföllum vegna kórónuveiru

Kona á göngu í Teheran, höfuðborg Írans í dag.
Kona á göngu í Teheran, höfuðborg Írans í dag. AFP

Að minnsta kosti 210 manns hafa týnt lífi vegna kórónuveirunnar í Íran, samkvæmt heimildarmönnum BBC innan íranska heilbrigðiskerfisins, en um er að ræða sex sinnum hærri dánartölu en írönsk stjórnvöld hafa greint frá opinberlega.

Stjórnvöld í Íran vilja meina að einungis 34 hafi látist vegna kórónuveiru í Íran. Flestir þeirra látnu eru frá höfuðborg Írans, Tehran, og borginni Qom en þar greindust fyrstu tilfelli veirunnar. 

Talsmaður heilbrigðisráðuneytis Íran sakaði BBC í dag um að dreifa lygum. Áður hafði þingmaður Qom borgar ásakað stjórnvöld um að breiða yfir raunverulega dánartölu og Bandaríkin lýst yfir áhyggjum af því að írönsk stjórnvöld væru að hylma yfir einhver dauðsföll. 

Segir boð Bandaríkjanna pólitískan leik

„Við höfum boðist til þess að aðstoða Íran,“ sagði Mike Pompeo á fundi þingnefndar í dag. „Heilbrigðiskerfi þeirra er ekki öflugt og innviðir í Íran eru það ekki heldur. Íranir hafa ekki verið viljugir til að deila upplýsingum um það sem raunverulega á sér stað í landinu.“

Abbas Mousavi, talsmaður utanríkisráðuneytis Írans, afþakkaði boð Bandaríkjanna um hjálp.

„Boð um að hjálpa Íran að takast á við kórónuveiruna kemur frá landi sem hefur beitt írönsku þjóðina gríðarlegum þrýstingi með efnahagslegri hryðjuverkastarfsemi og hefur jafnvel komið í veg fyrir að Íran geti keypt lækningatæki og lyf. Þetta tilboð er fáránlegur, pólitískur og sálfræðilegur leikur,“ sagði hann. 

Frétt BBC um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert