Sprenging í fjölda nýrra smita í Suður-Kóreu

Suður-Kóreskir hermenn í hlífðarfatnaði úða sótthreinsandi efni í Daegu.
Suður-Kóreskir hermenn í hlífðarfatnaði úða sótthreinsandi efni í Daegu. AFP

Stjórnvöld í Suður-Kóreu hafa tilkynnt 813 ný tilfelli af kórónuveirusmiti þar í landi það sem af er degi. Er það mesta fjölgun smita sem greint hefur  á einum degi í landinu og alls hafa því 3.150 manns smitast.

Þá greina stjórnvöld frá því að kona á áttræðisaldri hafi greinst með veiruna í annað skipti eftir að hafa jafnað sig og útskrifast af spítala eftir fyrsta smit.

Konan er sögð hafa smitast í annað skipti „vegna þess að ónæmiskerfi hennar hrakaði“, en þetta er haft eftir Kwon Jun-wook, yfirmanni hjá smitsjúkdóma- og sóttvarnastofnun Suður-Kóreu.

Yfir 90% af smitunum áttu sér stað í borginni Daegu, sem hefur verið miðpunktur kórónuveirusmits í landinu. Þrjár konur og einn karlmaður létust og hafa því samtals 17 látist. Öll voru þau 60 ára eða eldri.

Reiknað er með að fjöldi nýrra smita muni greinast á næstu dögum þegar sýni verða tekin úr rúmlega 260 þúsund manns sem tengjast trúarsöfnuðinum Shincheonji Church of Jesus en um helmingur greindra með kórónuveiruna mun tengjast söfnuðinum. Talsmaður kirkjunnar segir að meðlimir hennar séu ofsóttir.

80% með væg einkenni

Um 80% þeirra sem hafa verið greindir fá einungis væg einkenni, sagði aðstoðarheilbrigðisráðherra S-Kóreu.

Yfirvöld hafa hvatt íbúa til að sýna stillingu og beðið þá sem finna fyrir einkennum að halda sig heima. Það er þó ekki til skoðunar að loka borginni líkt og gert hefur verið í Hubei-héraði í Kína.

Mörgum fjöldasamkomum hefur verið aflýst og opnun skóla frestað um eina viku á landsvísu, en um þrjár vikur í Daegu. Þá hefur sameiginlegri heræfingu S-Kóreu og Bandaríkjanna verið frestað. Bílaframleiðandinn Hyundai stöðvaði framleiðslu tímabundið í einni verksmiðju sinni í Ulsan eftir að starfsmaður þar greindist með veiruna.

Göturnar í Daegu-borg nánast auðar dag eftir dag.
Göturnar í Daegu-borg nánast auðar dag eftir dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert