Veiran hafi komið heiminum að óvörum

Donald Trump ásamt varaforsetanum Mike Pence.
Donald Trump ásamt varaforsetanum Mike Pence. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist munu halda blaðamannafund á morgun, þriðjudag, til að fara yfir þær ráðstafanir sem ríkisstjórn hans hyggst gera vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

Forsetinn flaug aftur til Washington síðdegis eftir að hafa varið helginni á golfvelli sínum í Flórída. Hann hefur síðustu vikur gert lítið úr þeirri ógn sem vísindamenn hafa sagt stafa af veirunni en eftir neyðarfund með starfsliði sínu sagði hann blaðamönnum í dag að hann hygðist kynna þingmönnum veigamiklar efnahagslegar ráðstafanir á morgun. Nefndi hann meðal annars að létt yrði á skattbyrði og aðstoð veitt því verkafólki sem óttaðist það að missa úr vinnu vegna veikinda.

Trump sagði veiruna hafa komið heiminum að óvörum.

Deildi flugvélinni með Trump

Yfir forsetanum vofðu einnig í dag áhyggjur af heilsu hans, eftir að tveir þingmenn úr röðum repúblikana sem nýlega áttu fund með honum tilkynntu að þeir væru á leið í sjálfskipaða sóttkví, af ótta við að hafa sjálfir smitast á ráðstefnu íhaldsmanna í nágrenni Washington-borgar.

Annar þeirra, þingmaðurinn Matt Gaetz, deildi forsetaflugvélinni með Trump fyrr í dag.

Útbreiðsla veirunnar hefur sömuleiðis vakið spurningar um hvort Trump geti haldið áfram þeim fjöldasamkomum sem eru stór hluti af baráttu hans fyrir að fá að sitja annað kjörtímabil í Hvíta húsinu.

Spurður hvort búið væri að athuga hvort forsetinn hefði smitast af kórónuveirunni sagðist varaforsetinn Mike Pence ekki vita það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert