Líkir viðbrögðum Grikkja við aðferðir nasista

Flóttafólk streymir nú yfir landamærin frá Tyrklandi til Grikklands.
Flóttafólk streymir nú yfir landamærin frá Tyrklandi til Grikklands. AFP

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, líkir meðferð Grikkja á flóttamönnum, sem koma yfir landamærin frá Tyrklandi, við aðferðir nasista. „Það er enginn munur á því hvað nasistarnir gerðu og því sem er að gerast við landamæri Grikklands núna,“ sagði hann í sjónvarpsræðu í dag. Í kjölfarið voru birtar myndir af því þar sem táragas var notað á flóttamenn sem reyndu að komast yfir landamærin. AFP-fréttastofan greinir frá. 

AFP

Grikkir hafa einnig verið sakaðir um að beita flóttafólkið ofbeldi og að ræna það öllum eigum sínum við komuna til Grikklands. Yfirvöld í Grikklandi neita hins vegar þessum ásökunum og saka Tyrki um að ýta örvæntingarfullu fólki út í hættulegar aðstæður.

Tyrkir tilkynntu það í lok febrúar að þeir hygðust opna landamærin yfir til Grikklands og þannig greiða leið flóttamanna til Evrópu, en í Tyrklandi hafast við um 3,6 milljónir sýrlenskra flóttamanna. Tyrknesk yfirvöld óttast að þeim muni fjölga enn frekar á næstunni. Erdogan segist hafa opnað landamærin í þeim tilgangi að þrýsta á að Evrópusambandið veiti frekari aðstoð vegna átakanna í Sýrlandi.

AFP

Þá sagði hann í sjónvarpsræðu sinni í morgun að hann hygðist halda landamærunum opnum þangað til Evrópusambandið mætti kröfum Tyrkja, eða alla vega koma til móts við þær með áþreifanlegum hætti. Meðal annars kröfum um fjárhagsaðstoð og aukna tollavernd.

Evr­ópu­sam­bandið hef­ur hins vegar sakað Er­dog­an um að nota flótta­fólk í póli­tísk­um til­gangi og krefst þess að flótta­fólki sé ekki hleypt til Evr­ópu með þess­um hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert