Sýni verður hvorki tekið hjá Donald Trump Bandaríkjaforseta né Mike Pence varaforseta vegna gruns um kórónuveirusmits. Fabio Wajngarten, upplýsingafulltrúi Jair Bolsonaro, forseta Brasilíu, sem fundaði með Trump og Pence í Flórída um helgina hefur verið greindur með COVID-19, sjúkdóminn sem kórónuveiran veldur.
Wajngarten snæddi til að mynda með Trump og Pence á sveitasetri Trump á Flórída um helgina og birti mynd af sér með Trump á samfélagsmiðlum.
„Við skulum orða þetta þannig: Ég er ekki áhyggjufullur,“ sagði Trump við fjölmiðlafólk á skrifstofu sinni í Hvíta húsinu í dag.
Stephanie Grisham, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, segir að samneyti forsetans og varaforsetans við upplýsingafulltrúann hafi í raun verið mjög lítið og því sé ekki þörf á að sýni verði tekin.
Hvorki Trump né Pence hyggjast fara í sjálfskipað sóttkví líkt og varúðarráðstafanir gera ráð fyrir þegar einstaklingar hafa umgengist einhvern sem er smitaður.