Loka Hong Kong og banna áfengissölu

AFP

Yfirvöld í Hong Kong hafa ákveðið að banna öðrum en íbúum að koma til borgarinnar frá og með miðnætti þriðjudags. Eins hefur veitingastöðum og börum verið bannað að selja áfengi. Allt eru þetta aðgerðir til að draga úr útbreiðslu kórónuveirunnar. 

Undanfarnar tvær vikur hefur staðfestum smitum fjölgað mjög í Hong Kong en þrátt fyrir nálægðina við meginland Kína eru þau afar fá eða 318 talsins. Er fjölgunin að undanförnu rakin til þess að íbúar Hong Kong hafa flýtt sér heim eftir að veiran fór að herja á Evrópu og Norður-Ameríku. 

AFP

Frá og með 25. mars (aðfararnótt miðvikudags) verður þeim sem ekki eru með ríkisfang í Hong Kong ekki heimilað að koma til borgarinnar. Gildir bannið í tvær vikur. Jafnfram verður fólki bannað að millilenda á flugvellinum en flugvöllurinn er í áttunda sæti yfir fjölförnustu flugvelli heims.

Um 8.600 barir og veitingastaðir eru með vínveitingaleyfi en þeim verður bannað að selja áfengi tímabundið en ekki gert að loka. 

Ekkert innanlandssmit var staðfest á meginlandi Kína í dag  en 39 smit voru staðfest sem komu erlendis frá. Níu létust í Kína síðasta sólarhringinn úr kórónuveirunni. Allir voru búsettir í Wuhan.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert