Yfir milljarður haldi sig heima

Yfir einn milljarður jarðarbúa er gert að halda sig heima vegna kórónuveirunnar um þessar mundir. Á sama tíma hafa um 342 þúsund manns smitast, tæplega 15 þúsund látist og tæplega 100 þúsund náð bata. 

Alls staðar í heiminum hafa stjórnvöld gripið til aðgerða vegna útbreiðslu COVID-19. Þau ríki þar sem veiran greindist fyrst eru á réttri leið en í Kína eru ný smit afar fá á hverjum degi undanfarna daga. Alls hafa um 81.500 manns smitast þar en 60 þúsund náð bata. 

Suður-Kórea greindi frá nýjum tölum fyrir skömmu og síðasta sólarhringinn greindust færri ný smit á einum degi en hefur verið undanfarinn mánuð. Þar eru 64 ný smit og hefur því 8.961 smitast þar af kórónuveirunni. 111 hafa látist af völdum veirunnar í S-Kóreu.

Samkvæmt tölum AFP er rúmlega milljarði íbúa í  yfir 50 löndum gert að halda sig heima en lönd eins og Frakkland, Ítalía og Argentína hafa gripið til þess að setja á útgöngubann nema ýtrustu nauðsyn beri til. Á sama tíma hafa lönd eins og Íran og Bretland gefið út tilmæli um að fólk haldi sig heima.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert