Óttast að deyja úr hungri

Aldrei áður hefur allt athafnalíf Indlands verið stöðvað líkt og nú er þegar 1,3 milljörðum Indverja hefur verið fyrirskipað að halda sig heima vegna kórónuveirunnar. Óttast margir þeirra að deyja úr hungri áður en veiran nær til þeirra. 

Götur Delí og annarra stórborga á Indlandi voru nánast auðar í dag — eitthvað sem aldrei gerist. Hvergi sést fólk á ferli og þeir sem verða verst úti eru fátækir landsmann. Fólk sem starfar við þjónustustörf á heimilum, götusölumenn og byggingaverkamenn. Þessir hópar skipa meirihluta vinnuafls á Indlandi en njóta ekki réttinda eins og heilbrigðistrygginga eða veikindaleyfisréttar. 

AFP

Nokkur ríki Indlands, þar á meðal Uttar Pradesh, sem er fjölmennasta ríki Indlands og um leið eitt það fátækasta, hefur boðað að fólk fái greiddar atvinnuleysisbætur, frí hrísgrjón og korn og fleiri matarmiða en áður í verslunum á vegum stjórnvalda.

En helsta áskorunin er hvernig á að koma aðstoðinni til fólks því margir þeirra eru ekki með reikning í banka og eins eru margir farandverkamenn frá öðrum löndum sem komast nú hvergi vegna bannsins. Fastir í borgum þar sem þeir hafa jafnvel ekki aðgang að velferðarkerfinu. 

Í gær voru matvöruverslanir nánast tæmdar í Nýju-Delí og Mumbai. Linsubaunir og aðrar baunir og hrísgrjón voru rifnar út og segja grænmetissalar afar erfitt að verða sér úti um vörur til að selja. Óttast þeir að vöruskortur sé í vændum, jafnvel innan fárra daga á sama tíma og verðlag rýkur upp. Til að mynda hafa tómatar tvöfaldast í verði á aðeins sólarhring. 

Eins kvartar fólk yfir skorti á upplýsingum því margir eru ekki með aðgang að neti og dagblöð hafa ekki verið borin út í einhverja daga.

AFP

Forsætisráðherra Indlands, Narendra Modi, tilkynnti um aðgerðirnar í gær og sagði að fólk ætti á hættu að vera dæmt í tveggja ára fangelsi bryti það reglurnar eða gert að greiða sekt. Nokkrum klukkutímum eftir að hafa tilkynnt þetta í sjónvarpsávarpi neyddist Modi til þess að reyna að róa landsmenn. Gerði hann það á Twitter og hét landsmönnum því að lyf og helstu nauðsynjar yrðu til áfram. Verslunareigendur kvarta yfir því í dag að erfitt sé að lofa því að vörur séu til ef birgjar komast ekki inn í borgirnar með vörur sínar. 

„Ég fæ mjólk, egg og rauð en venjulega fæ ég um 100 pakkningar af brauði en nú eru þær 20 talsins,“ segir verslunareigandi í samtali við AFP-fréttastofuna. 

Götusóparar eiga að mæta til starfa en það er hægra sagt en gert ef þeir búa ekki í næsta nágrenni við vinnusvæði sitt þar sem samgöngur eru lamaðar. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert