Bandaríkin með flest tilfelli allra

Trump hefur gefið út misvísandi skilaboð varðandi faraldurinn.
Trump hefur gefið út misvísandi skilaboð varðandi faraldurinn. AFP

Bandaríkin eru nú það land þar sem flest tilfelli kórónuveirusmits hafa verið staðfest. Að minnsta kosti rúmlega 81 þúsund manns hafa smitast af veirunni þar í landi og þar af hafa fleiri en þúsund látið lífið af hennar sökum.

Frá þessu greinir dagblaðið New York Times.

Donald Trump, forseti þessa þriðja fjölmennasta ríkis heims, hefur undanfarna mánuði gefið út misvísandi skilaboð um þá hættu sem veirunni fylgir og hvernig megi hamla faraldrinum.

Á vef blaðsins er vísað til þess hvernig stjórnvöldum hafi mistekist að taka faraldurinn alvarlega á sama tíma og hann læsti greipum sínum um hluta Kína, og hvernig þau hafi ekki náð að bjóða upp á viðamiklar prófanir fyrir veirunni og þar með verið blind gagnvart útbreiðslu hennar.

Einnig skorti sárlega grímur og annan varnarfatnað til að hjálpa læknum og hjúkrunarfræðingum í framlínunni við baráttuna gegn veirunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert