Lífið ekki í réttar skorður næstu sex mánuði?

Westminster-brúin í Lundúnum stendur nær auð að morgni dags eftir …
Westminster-brúin í Lundúnum stendur nær auð að morgni dags eftir að útgöngubanni var komið á. AFP

Daglegt líf fólks gæti mögulega ekki komist í réttar skorður næstu sex mánuði eða lengur. Við þessu varaði Jennifer Harries, aðstoðarlandlæknir Bretlands, á blaðamannafundi í Downingstræti í dag.

Tók hún fram að núgildandi takmarkanir á ferðum og samkomum fólks yrðu endurmetnar á þriggja vikna fresti en varaði einnig við því að veiran kynni að breiðast hratt út á ný ef takmörkununum yrði aflétt of fljótt.

Fjöldi látinna af völdum veirunnar nálgast nú 1.200 í Bretlandi. Verslunum án nauðsynjavara og öðrum þjónustum var lokað fyrir viku og fólki sagt að halda sig heima nema til að fá sína daglegu hreyfingu, ná í matvæli og til að hjálpa viðkvæmu fólki.

Boris Johnson forsætisráðherra er á meðal þeirra tæplega tuttugu þúsund Breta sem greinst hafa með sýkingu veirunnar. Hann er sagður hafa væg einkenni sjúkdómsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert