Ítalir minnast þeirra sem látnir eru

Rúmlega 11.500 hafa látist vegna kórónuveirunnar á Ítalíu.
Rúmlega 11.500 hafa látist vegna kórónuveirunnar á Ítalíu. AFP

Einnar mínútu þögn var um alla Ítalíu í morgun og flaggað í hálfa stöng til að minnast þeirra rúmlega 11.500 sem látist hafa þar í landi vegna kórónuveirunnar. Ítalía hefur orðið verst úti allra ríkja vegna veirunnar þar sem um þriðjungur allra dauðsfalla af völdum hennar hefur átt sér þar stað. Um 102 þúsund kórónuveirusmit hafa greinst í landinu. AFP-fréttastofan greinir frá.

Þennan mánuðinn hafa fleiri látist á Ítalíu af völdum einstaks atburðar en nokkru sinni frá því í seinni heimsstyrjöldinni.

Fyrsta smitið af völdum veirunnar greindist í norðurhluta landsins í lok febrúar í Langbarðalandi en síðan þá hefur faraldurinn breiðst mjög hratt út. Langbarðaland hefur þó orðið langverst úti, en þar hafa sjúkrahúsin verið yfirfull nánast allan mánuðinn. Nú liggja næstum 4.000 einstaklingar á gjörgæsludeildum landsins en þeir eru allir í alvarlegu ástandi.

„Veiran er áverki sem hefur valdið allri þjóðinni skaða,“ sagði Virginia Raggi, borgarstjóri Rómar, eftir að prestur fór með bænir fyrir hinum látnu og mínútuþögn var afstaðin. „Við munum komast í gegnum þetta saman,“ sagði hún jafnframt við athöfn sem fór fram fyrir utan ráðhúsið í Róm.

Útgöngubann hefur verið í gildi á Ítalíu síðastliðnar þrjár vikur til að reyna að hefta útbreiðslu veirunnar og verður áfram í gildi, að minnsta kosti fram í miðjan apríl. Ekki má búast við því að verslanir og veitingastaðir verði opnuð aftur fyrr en í maí og alls óvíst er hvenær líf á Ítalíu kemst aftur í samt horf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert