Létust við slökkvistarf í Kína

Skógareldar geisa í Kína.
Skógareldar geisa í Kína. AFP

18 slökkviliðsmenn og fjórir til viðbótar þar á meðal leiðsögumaður létust í baráttu sinni við að hefta skógarelda í Sichuan-héraði í Kina. Þrír úr hópnum komust lífs af og voru þeir fluttir á sjúkrahús. Eldarnir hafa teygt sig yfir 1.000 hektara lands. Þetta kemur fram í ríkisfjölmiðli landsins. 

Samkvæmt Xinhua-fréttastofunni breyttist vindáttin skyndilega sem leiddi til þess að hópurinn króaðist af og varð eldinum að bráð snemma í morgun. 

Yfir 2.000 slökkviliðs- og björgunarsveitarmenn eru að störfum á svæðinu og 1.200 íbúar hafa þurft að yfirgefa heimili sín. 

Eldurinn kviknaði á sveitabæ og breiddist fljótlega út í náttúruna í kring. Hvasst var á svæðinu þegar eldurinn braust út í gær. Þykkur reykjarmökkurinn sem stígur upp af svæðin hefur borist yfir til nærliggjandi borgar, Xichang. 

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert