„Mjög sársaukafullar“ vikur framundan

Donald Trump á blaðamannafundinum.
Donald Trump á blaðamannafundinum. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að „mjög sársaukafullar“ tvær vikur séu framundan í baráttu Bandaríkjamanna við kórónuveiruna. „Þetta verða mjög sársaukafullar, mjög, mjög sársaukafullar tvær vikur,“ sagði hann á blaðamannafundi í Hvíta húsinu.

Hann lýsti faraldrinum sem plágu. „Ég vil að allir Bandaríkjamenn verði tilbúnir fyrir þessa erfiðu daga sem eru framundan,“ bætti hann við.

Allt að 240 þúsund dauðsföll

Á blaðamannafundinum greindi Deborah Birx, sem er yfirmaður viðbragðsteymis vegna kórónuveirunnar, að á bilinu 100 þúsund til 240 þúsund dauðsföll gætu orðið í Bandaríkjunum. „Það er ekkert töfralyf eða meðferð við þessu,“ sagði hún. „Þetta snýst bara um hegðun fólks,“ bætti hún við og sagði rétta hegðun nauðsynlega til að hafa hemil á veirunni næstu þrjátíu dagana.   

Fyrr í dag var greint frá því að yfir 3.400 manns hefðu látist af völdum veirunnar í Bandaríkjunum og fór landið þannig fram úr Kína en þar hafa 3.309 manns látist samkvæmt mælingu John Hopkins-háskólans.

Trump bendir á grafík sem var kynnt á fundinum.
Trump bendir á grafík sem var kynnt á fundinum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert