Þúsundir nemenda „týnast“ í fjarkennslu

Talið er að um 960.000 börn á grunn- og framhaldsskólaaldri …
Talið er að um 960.000 börn á grunn- og framhaldsskólaaldri gætu verið að dragast verulega aftur úr í námi í Frakklandi en kennurum gengur erfiðlega að halda sambandi við hluta nemendur. AFP

Kennarar víðs vegar í Frakklandi hefur gengið erfiðlega að halda sambandi við mörg þúsund nemendur á meðan fjarkennslu stendur. Skólar hafa verið lokaðir í nokkrar vikur vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. 

„Við áætlum að um 5-8% nemenda séu „týndir“, byggt á tölum síðustu tveggja vikna,“ segir Jean-Michel Blanquer, menntamálaráðherra Frakklands. Hann hefur beðið skólastjórnendur að hafa samband við fjölskyldur nemenda nokkrum sinnum í viku. 

Tölurnar eiga við nemendur á grunn- og framhaldsskólaaldri en 12 milljónir franskra barna stunda nám á þeim skólastigum. Það merkir að um 960.000 börn gætu verið að dragast verulega aftur úr í námi. 

Menntayfirvöld hafa sett upp ýmis kennslugögn á netinu eða sent foreldrum kennsluefni í tölvupósti en Blanquer viðurkennir að óneitanlega hafi fjölskyldur misjafnan aðgang að efninu sem getur leitt til ójöfnuðar. Ráðuneytið hefur því í samstarfi við frönsku póstþjónustuna komið upp kerfi þar sem kennsluefni er ekið heim til nemenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert