Yfir 30 þúsund Evrópubúar látnir

Yfir 30 þúsund Evrópubúar hafa látist af völdum kórónuveirunnar undanfarnar vikur og af þeim hafa þrír af hverjum fjórum látist í aðeins tveimur löndum; Ítalíu og Spáni. Alls eru staðfest smit í álfunni 458.601 talsins.

Þetta kemur fram í tölum AFP-fréttastofunnar og byggjast þær á upplýsingum frá yfirvöldum í ríkjum Evrópu og WHO. 

AFP

Af þeim 30.063 sem voru látnir klukkan sjö í morgun eru 12.428 búsettir á Ítalíu og 8.189 á Spáni. Enn sem komið er hefur engin heimsálfa orðið jafn illa úti og Evrópa. Í Bandaríkjunum eru 4.076 látnir. Yfir 40 þúsund voru látnir úr veirunni í gær.

Hollensk yfirvöld ákváðu í gær að framlengja takmarkanir sem þar gilda vegna veirunnar til 28. apríl en Hollendingar hafa farið svipaða leið og Íslendingar í viðbrögðum við veirunni. Alls eru 1.152 á gjörgæsludeildum sjúkrahúsa í Hollandi og hefur þeim fjölgað um 80 á sólarhring. Tæplega 13 þúsund hafa greinst með veiruna í Hollandi og 1.040 látist af völdum hennar.

AFP

Á blaðamannafundi í gær greindi heilbrigðisráðherra Hollands, Hugo de Jonge, frá því að á næstu vikum yrði aukinn kraftur settur í sýnatöku og jafnvel yrði hægt að fara í sýnatöku utan heilbrigðisstofnana. Eins og staðan er í dag eru aðeins tekin sýni af fólki sem er með einkenni sem benda til þess að viðkomandi sé með COVID-19. Um fjögur þúsund sýni eru yfirleitt tekin á dag í Hollandi en de Jonge segir að vonir standi til að það takist að fjölga þeim í 17.500 innan nokkurra vikna og í 29 þúsund á dag síðar. 

AFP

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, António Guterres, segir ástandið nú verstu ógn mannkynsins frá seinni heimsstyrjöldinni. Á sama tíma virðist ekkert lát vera á hörmungum tengdum veirunni. Um helmingur allra íbúa jarðarinnar er í einhvers konar sóttkví eða býr við takmarkanir á ferðafrelsi og samkomuhaldi. Yfir 840 þúsund jarðarbúar hafa greinst með veiruna. 

AFP

Á sama tíma og sífellt fleiri greinast með smit í Bandaríkjunum og tala látinna hækkar hratt óttast læknar þar í landi að stutt sé í að það þurfi að velja hverjir fái aðstoð og hverjir ekki. 

„Ef sjúklingum fjölgar hratt sem leita hingað og aðeins takmarkað magn öndunarvéla er í boði er ekki víst að hægt verði að setja alla þá í öndunarvél,“ segir Shamit Patel, læknir við Beth Israel-sjúkrahúsið. „Og þá þarftu að velja og hafna.“

Líkt og Guterres bendir á er farsóttin ógn við alla jarðarbúa og efnahagsleg áhrif hennar munu þýða verri kreppu en áður hefur sést. Þetta tvennt veldur því að óstöðugleiki eykst í heiminum og ýtir undir átök. Allt þetta veldur því að þetta eru stærstu áskoranir sem við höfum staðið frammi fyrir frá því í seinni heimsstyrjöldinni. 

AFP

Ísland hefur tekið undir yfirlýsingu 53 ríkja sem styðja ákall framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um tafarlaust vopnahlé á heimsvísu. Hvatt er til þess að þjóðir heims beini spjótum sínum gegn heimsfaraldri kórónuveiru.

Allar Norðurlandaþjóðirnar eru í hópi ríkjanna fimmtíu og þriggja. Frakkland er eina ríkið sem á aðild að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna sem styður ákallið. Flest Evrópusambandsríkin taka undir það, þar á meðal Þjóðverjar, en ekki Bretar.

AFP

Ríkin lýsa sérstaklega yfir áhyggjum af stöðu kvenna og barna, auk þess sem áhersla er lögð á jaðarsetta hópa, fátækari ríki og flóttafólk. Einnig er lýst yfir stuðningi við aðgerðir Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og annarra stofnana SÞ til að tryggja vernd borgara í ríkjum þar sem átök geisa. Að lokum er þökkum komið á framfæri til mannúðar- og heilbrigðisstarfsfólks í framlínu heimsfaraldursins.

Fleiri lönd í Evrópu hafa orðið illa úti, til að mynda létust 499 í Frakklandi í gær og 381 í Bretlandi, þar á meðal 13 ára drengur. Fyrr um daginn hafði verið greint frá andláti 12 ára gamallar belgískrar stúlku. Bæði börnin voru við góða heilsu áður en þau fengu kórónuveiruna.

AFP

Eitt af því sem margar ríkisstjórnir hafa gripið til er að setja á útgöngubann, það er fólki er óheimilt að yfirgefa heimili sín nema að ströngum skilyrðum uppfylltum. Sérfræðingar segja að ákvörðun Kínverja um að loka Wuhan, borginni þar sem COVID-19-veiran á upptök sín, hafi sennilega komið í veg fyrir 750 þúsund ný smit þar. Ef ekki hefði komið til ferðabanns og neyðarviðbragða kínverskra yfirvalda megi gera ráð fyrir að yfir 700 þúsund tilfelli hefðu verið skráð utan Wuhan um miðjan febrúar segja rannsakendur við Oxford-háskóla. 

AFP

Mörg fyrirtæki og skólar í heiminum hafa gripið til þess að bjóða upp á fjarkennslu eða -vinnu með aðstoð tækninnar. En það á ekki við um allan heiminn því á stórum svæðum hefur fólk einfaldlega ekki ráð á slíkum munaði — að geta setið við tölvuna við borðstofuborðið heima og unnið eða lært. Því er efnahagur fólks í þróunarlöndunum miklu meira áhyggjuefni en margra þeirra sem búa á Vesturlöndum. Þetta ástand fékk nokkur hundruð bláfátæka Túnisbúa til að fara út á götur og mótmæla útgöngubanni sem staðið hefur yfir í viku. 

„Ekkert mál, kórónuveira, við munum deyja hvort sem er!“ kallaði einn þeirra sem tóku þátt í mótmælum í úthverfi höfuðborgar Túnis.

AFP

Staðan er skelfileg fyrir íbúa fjölmennustu borgar Afríku, Lagos í Nígeríu, en þar tók útgöngubann gildi í gær. Óttast er um líf milljóna íbúa í fátækrahverfum borgarinnar sem eiga engan möguleika á að afla sér lífsviðurværis á meðan bannið varir.

Í Cox Bazar-flóttamannabúðunum í Bangladess ríkir mikil gleði í dag þar sem yfirvöld í Bangladess hafa aflétt netbanni sem gilti í búðunum, en þar býr yfir milljón róhingja. Loksins geta íbúar þar haft samband við ættingja og vini annars staðar.  

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert