Sakaði fjölmiðla um múgæsing en lést sjálfur úr veirunni

Presturinn Landon Spradlin ásamt eiginkonu og fjórum dætrum. Spradlin sakaði …
Presturinn Landon Spradlin ásamt eiginkonu og fjórum dætrum. Spradlin sakaði fjölmiðla um múgæsing með umfjöllun um kórónuveiruna. Stuttu seinna lést hann af völdum COVID-19. Ljósmynd/Facebook

Bandaríski presturinn Landon Spradlin hafði litlar áhyggjur af kórónuveirunni í febrúar og hélt sínu striki og fór til New Orleans til að taka þátt í messuhaldi og hátíðarhöldum í tengslum við Mardi Gras-hátíðina í borginni. Mánuði síðar lést hann af völdum COVID-19-sjúkdómsins.

Karni­valið „Feiti þriðju­dag­ur­inn“ (fr. Mar­di Gras) er haldið ár­lega í borg­inni og dreg­ur til sín fjölda ferðamanna. 

„Hann elskaði að hlæja. Hann elskaði að spila á gítar, hann spilaði meira að segja á gítar þegar hann átti ekki að vera að því,“ segir Jesse Spradlin, ein fjögurra dætra prestsins. „Hann var besti maður í heimi.“ Fjölskyldan vonast til að geta haldið veglega minningarathöfn þegar heimsfaraldurinn er genginn yfir. 

Veiran ekki til tals á hátíðinni

Fyrir rúmum mánuði keyrðu Spradlin-hjónin um 1.500 kílómetra leið frá Virginíu til New Orleans í Louisiana til að vera viðstödd hátíðahöld í tengslum við Mardi Gras. Hann leit á hátíðina sem tækifæri til að „frelsa fjölmargar sálir sem sóttu hátíðina heim“. 

„Hans markmið var að fara á bari og skemmtistaði, spila smá blús og kynnast tónlistarmönnum og koma þeim í skilning um að Jesús elskar þá,“ segir Jesse dóttir hans, sem líkir stemningunni í New Orleans á Mardi Gras við Times Square í New York á nýársnótt. 

Karni­valið „Feiti þriðju­dag­ur­inn“ (fr. Mar­di Gras) er haldið ár­lega í …
Karni­valið „Feiti þriðju­dag­ur­inn“ (fr. Mar­di Gras) er haldið ár­lega í New Orleans og dreg­ur til sín fjölda ferðamanna. Presturinn Landon Spradlin leit á hátíðina sem tækifæri til að „frelsa fjölmargar sálir sem sóttu hátíðina heim“. AFP

Naomi, önnur dóttir Spradlin-hjónanna, var einnig með í för. „Ég man ekki einu sinni eftir því að hafa talað um veiruna,“ segir hún. Hátíðin var haldin í lok febrúar, um mánuði eftir að fyrsta smitið var staðfest í Bandaríkjunum, en hátíðahöldin fóru fram eins og ekkert hefði ískorist. 

Yfirvöld í borginni saka nú stjórnvöld um aðgerðaleysi í baráttunni gegn útbreiðslu kórónuveirunnar. Spradlin veiktist fljótlega eftir hátíðina en sýni sem tekið var vegna gruns um kórónuveiruna reyndist neikvætt. Spradlin tjáði sig um veikindin á samfélagsmiðlum og sakaði fjölmiðla meðal annars um múgæsing með umfjöllun sinni um veiruna. 

Sagði fjölmiðla vilja koma höggi á Trump

13. mars birti hann færslu á facebooksíðu sinni þar sem hann sagði fjölmiðla hafa komið fram við Barack Obama, þáverandi Bandaríkjaforseta, með allt öðrum hætti þegar svínaflensufaraldurinn geisaði en þeir gera við Donald Trump nú. Sagði hann fjölmiðla vera að reyna að koma höggi á Bandaríkjaforseta í umfjöllun sinni um kórónuveiruna, ekki síst þar sem forsetakosningar eru fram undan.

Stuttu síðar hrakaði Spradlin og hann og eiginkona hans ákváðu að halda heim á leið. Spradlin komst aldrei heim til sín og lést á spítala í Norður-Karólínu eftir að hafa legið á gjörgæslu í átta daga. Dánarorsökin var lungnabólga en hann reyndist einnig vera með kórónuveiruna.

Fjölskylda Spradlins segir að hann hafi gert sér grein fyrir að kórónuveiran veldur alvarlegum sjúkdómi en þau eru, líkt og fjölskyldufaðirinn, ósátt við hvernig fjölmiðlar fjalla um heimsfaraldurinn. „Það fer í taugarnar á mér hversu uppteknir fjölmiðlar eru af að koma sínum skoðunum á framfæri. Mér finnst eins og kórónuveiran sé orðin að flokkastjórnmálum í stað þess að sameina okkur sem eina þjóð undir Guði,“ segir Jesse.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert