Banna líkamsrækt utandyra

Margir þjálfa úti þessa dagana í Frakklandi.
Margir þjálfa úti þessa dagana í Frakklandi. AFP

Frá og með miðvikudegi verður Parísarbúum óheimilt að stunda líkamsrækt utandyra að degi til. Dánartíðni vegna kórónuveirunnar hækkar með degi hverjum en nú hafa fleiri en 10.000 fallið frá vegna veirunnar. Það er fjórða hæsta tala látinna á heimsvísu. 

Bannið gildir á milli tíu að morgni til og fram til sjö að kvöldi. Borgarstjóri Parísar segir að bannið muni leiða til þess að fólk stundi frekar líkamsrækt utandyra þegar minni umferð er um götur borgarinnar. Tala látinna í Frakklandi hefur vaxið um 16% frá mánudegi. 

Um síðastliðna helgi var blíðskaparveður í París og nýtti fjöldi fólks tækifærið og fór út að hlaupa eða ganga í almenningsgörðum borgarinnar þrátt fyrir strangar reglur í París vegna kórónuveirunnar.

Ströngum aðgerðum hefur verið beitt í Frakklandi til þess að sporna við útbreiðslu kórónuveirunnar en allir sem fara út úr húsum sínum þurfa að hafa með sér útprentaða heimild til þess. Þar komi fram ástæða þess að þeir fari út fyrir hússins dyr. Ástæðurnar geta verið ýmiss konar, fólk getur fengið heimild til þess að kaupa nauðsynjavörur, fara til læknis eða stunda líkamsþjálfun, sú þjálfun hefur til þessa ekki mátt fara fram lengra en kílómetra frá heimili þess sem hana stundar. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert