Lygar sérfræðings í raðmorðingjum afhjúpaðar

Stéphane Bourgoin.
Stéphane Bourgoin. Ljósmynd/Wikipedia.org/Par Olivier Strecker

Rannsókn á netinu hefur afhjúpað lygar franska rithöfundarins Stéphane Bourgoin en bækur hans um raðmorðingja hafa selst í milljónum eintaka í Frakklandi.

Bourgoin hefur skrifað yfir fjörutíu bækur og hefur verið talinn mikill sérfræðingur um morðingja. Meðal annars hafa kraftar hans verið nýttir í heimildarmyndum í frönsku sjónvarpi, að því er The Guardian greindi frá. 

Hann sagðist hafa tekið viðtöl við yfir sjötíu raðmorðingja, hlotið þjálfun í bækistöðvum bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, í Quantico í Virginíu-ríki og hann greindi frá því að eiginkona hans hefði verið myrt um miðjan áttunda áratuginn af manni sem játaði tugi annarra morða. Tveimur árum síðar hefði hann verið handtekinn.

Eiginkonan var aldrei til 

Í janúar sökuðu samtökin 4ème Oeil Corporation Bourgoin um að hafa logið um fortíð sína og hefur hann núna játað í frönskum fjölmiðlum að eiginkonan hafi aldrei verið til. Einnig hefur hann viðurkennt að hafa aldrei hlotið þjálfun hjá FBI, aldrei tekið viðtal við Charles Manson, að hann hafi hitt mun færri morðingja en hann hefur áður haldið fram og að hann hafi aldrei verið atvinnumaður í knattspyrnu eins og hann vildi meina.

Í viðtali við Paris Match í síðustu viku tjáði hann sig í fyrsta sinn um ásakanirnar og játaði að hafa logið. Í viðtali við Le Parisien í gær gekk hann lengra og sagðist vera lygasjúkur. „Ég viðurkenni algjörlega mína galla.  Ég skammast mín fyrir að hafa logið, að hafa falið hluti,“ sagði hann.

Byggð á annarri konu 

Að sögn Bourgoin átti hann aldrei eiginkonu sem var myrt. Skáldaða eiginkonan var byggð á ungri konu, Susan Bickrest, sem hann hitti stuttlega á bar í Flórída. Árið 1975 var Bickrest, þá 24 ára, myrt af raðmorðingjanum Gerald Stano, sem síðar játaði að hafa drepið 41 konu. Hann var tekinn af lífi árið 1998.

„Þetta var kjaftæði sem ég hélt fram,“ sagði Bourgoin og bætti við að hann þyrfti á sálfræðiaðstoð að halda. Baðst hann innilega afsökunar í samtali við Le Parisien.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert