Hópsmit í kjötvinnslum

AFP

Hópsmit hefur komið upp í sláturhúsi í Westfleisch í Neðra-Saxlandi og hefur það vakið upp spurningar um vinnuaðstæður í kjötvinnslum í Þýskalandi. Alls hafa 92 starfsmenn sláturhússins greinst með kórónuveirusmit. 

Sláturhúsinu og kjötvinnslu þess hefur verið lokað tímabundið og starfsfólkið sent í sóttkví. Hópsmit hafa komið upp í nokkrum sláturhúsum og kjötvinnslum í Þýskalandi að undanförnu. 

Margir þeirra sem hafa greinst með smit eru farandverkamenn frá Austur-Evrópu sem búa í vinnubúðum tengdum kjötvinnslunni. Yfirvöld í Þýskalandi óttast að kjötiðnaðurinn geti reynst gróðrarstía nýrra kórónuveirusmita á sama tíma og unnið er að því að draga úr hömlum sem fylgt hafa samkomubanni þar í landi. Svipað hefur gerst í Frakklandi. 

Stór smitklasi kom upp í sláturhúsi í Coesfeld í Vestur-Þýskalandi fyrr í mánuðinum og hafa yfir 260 smit verið staðfest þar. Vegna stöðunnar þar var ákveðið að skima víðar í þýskum kjötvinnslum og hafa yfir 100 smit verið staðfest í kjötframleiðslu í Slésvík-Holstein og um 60 í einni vinnslu í Bæjaralandi. 

Ráðherrar í ríkisstjórn landsins ætla að ræða í dag um ástandið í sláturhúsunum og á vinnumálaráðherra landsins, Hubertus Heil, von á því að herða þurfi reglur sem gilda um aðstæður á vinnustöðum þar. 

En það eru ekki bara sláturhúsin sem vekja ugg meðal þýskra yfirvalda því í búðum fyrir flóttafólk í St. Augustin, skammt frá Bonn, hafa yfir 100 af 500 íbúum greinst með COVID-19. 

Alls hafa verið staðfest 174.697 kórónuveirusmit og af þeim hafa rúmlega 7.900 látist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert