Keyrði inn í hijab-búð og særði tíu

Hér má sjá umrædda tegund af höfuðslæðu. Myndin tengist fréttinni …
Hér má sjá umrædda tegund af höfuðslæðu. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti. AFP

Tíu manns særðust, í það minnsta einn alvarlega, eftir að bíl var ekið inn í búð sem selur hijab, höfuðslæðu sem hylur hár og háls, í áströlsku borginni Sydney í dag. 

Níu gangandi vegfarendur, og ökumaður bifreiðarinnar sem ók inn í búðina, þörfnuðust aðhlynningar í kjölfar atviksins. Þeir sem slösuðust voru aðallega konur á aldrinum 18 til 30 ára en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Nýja Suður-Wales var einn alvarlega slasaður og annar mögulega alvarlega slasaður. Enginn hlaut þó áverka sem teljast lífshættulegir. Guardian greinir frá þessu.

Myndband af atvikinu sem er í dreifingu á samfélagsmiðlum sýnir dökkan sendibíl af tegundinni Mitsubishi sem er fastur í umferð ýta hvítri fólksbifreið á undan sér og að gatnamótunum. Reykur rýkur upp úr dekkjum sendibílsins sem virðist svo flýta sér fram hjá hvíta bílnum og beint inn í glerhurð hijab-búðarinnar.

Engar vísbendingar um hryðjuverk

Lögreglan í Nýja Suður-Wales segir að það séu engar vísbendingar um að atvikið sé tengt hryðjuverkastarfsemi en að ökumaðurinn sé góðkunningi lögreglunnar vegna afbrota í umferðinni. 

Ökumaður sendibílsins er 51 árs karlmaður en hann var fluttur á sjúkrahús og handtekinn. Á sjúkrahúsinu fór hann í bæði blóð- og þvagprufur. Hann hefur rætt stuttlega við lögreglu en ekki farið í formlega yfirheyrslu. 

Lögreglan veit ekki hvort um viljaverk sé að ræða en málið verður rannsakað frá öllum hliðum. 

Á myndbandsupptöku innan úr búðinni eftir atvikið sjást konur liggja í gólfinu, blóðugar um fæturna. Ein konan vaggaði sér fram og aftur á meðan hún hélt um andlit sitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert